Menning

Hátíðarhöld með breyttu sniði um verslunarmannahelgi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ein með öllu verður á Akureyri um helgina. Hátíðin verður með breyttu sniði og verður viðburðum dreift vítt og breytt um bæinn.
Ein með öllu verður á Akureyri um helgina. Hátíðin verður með breyttu sniði og verður viðburðum dreift vítt og breytt um bæinn. Vísir/Vilhelm

Hátíðarhöld um verslunarmannahelgi verða með breyttu sniði í ár vegna kórónuveirufaraldursins sem nú geisar. Þó verður ýmislegt um að vera um allt land en ýmsar ráðstafanir hafa verið gerðar til að stemma stigu við mögulegum smitum á hverjum stað.

Fólk er beðið um það af almannvarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis að huga að persónubundnum smitvörnum, þvo hendur og spritta og fara að öllu með gát.

Ein með öllu/litlu

Fjölskylduhátíðin Ein með öllu verður haldin á Akureyri um verslunarmannahelgina en hún verður þó með breyttu sniði vegna kórónuveirufaraldursins. Haldnir verða litlir fjölskylduvænir viðburðir víðs vegar um bæinn og samkvæmt heimasíðu hátíðarinnar verður tryggt að fullorðnir gestir á einstökum viðburðum verði aldrei fleiri en 500, í samræmi við þau mörk sem sett eru af sóttvarnaryfirvöldum.

Stórir útitónleikar sem tíðkast hefur að halda í miðbæ Akureyrar síðustu ár verða ekki á dagskrá og heldur ekki Sparitónleikar á flötinni við Samkomuhúsið á sunnudagskvöld.

Einn skipuleggjenda Einnar með öllu segir í samtali við fréttastofu að viðburðirnir verði margir á sama tíma á hátíðinni til þess að stemma stigu við því að fólk hópist allt á sama stað.

„Við köllum þetta nú bara eina með litlu og það er varla hægt að kalla þetta hátíð lengur. Það er ekkert svið hjá okkur og engir tónleikar yfir höfuð.“

Tívolí verði á svæðinu sem sjái um eigin sóttvarnir. Á öðrum viðburðum, þar á meðal Mömmur með möffins, sem er að verða einn stærsti viðburðinn að sögn hans, sé búið að skipta svæðinu niður, plexígler hafi verið sett upp milli afgreiðslu og kúnna og svo framvegis. „Það eru bara öll spjót úti í þessum málum.“

Innipúkinn

Tónlistarhátíðin Innipúkinn verður haldin í Reykjavík og fer hátíðin fram í Gamla bíói og á skemmtistaðnum Röntgen. Gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana til að gæta að 500 manna samkomutakmarki. Að sögn Ásgeirs Guðmundssonar, eins skipuleggjenda hátíðarinnar segir í samtali við fréttastofu að aðeins fimmhundruð manns verði á hátíðinni hverju sinni á báðum stöðum, þar með taldir starfsmenn og tónlistarmenn.

„Við búum við þær aðstæður að við erum að selja miða inn á okkar hátíð þannig að við getum stýrt fjöldanum mjög nákvæmlega í gegn um miðasölu. Svo erum við með tvo staði en við seljum hins vegar ekki fleiri en fimm hundruð miða þannig að við erum alveg búin að gulltryggja að koma okkur ekki í þær aðstæður að það verði fleiri en fimm hundruð manns til að mynda inni í Gamla bíó,“ segir Ásgeir.

Inni í þessum fimm hundruð miðum eru tónlistarmenn og starfsfólk talið með, svo aldrei verði fleiri en fimm hundruð á staðnum.

Þá hefur fengist afnotaleyfi hjá Reykjavíkurborg fyrir því að loka Ingólfsstræti, sem bæði Gamla bíó og Röntgen standa við, svo hægt sé að loka útisvæðinu og koma í veg fyrir að stærri hópur myndist fyrir utan.

„Við verðum með fjöldastýringar inn á svæðið og þá verðum við einnig með fjöldastýringu sem snýr að því sem kemur að tónleikum í Gamla bíói og þá er möguleiki á því að leiða fólk út fyrir götuna og svo aftur inn á svæðið, að því gefnu að við megum hleypa fleirum þar inn, bara eftir fjölda hverju sinni.“

Þjóðhátíð í Eyjum

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum hefur verið aflýst að þessu sinni, í fyrsta skipti frá fyrri heimsstyrjöld en hátíðinni var aflýst 1914 og 1915. Þó má búast við því að Eyjamenn haldi eigin veislur heima í garði og hefur Facebook-hópurinn Þjóðhátíðin mín 2020 verið stofnaður þar sem fólk er hvatt til að deila myndum og upplýsingum um eigin hátíðarhöld til heimildasöfnunar.

Tónleikar á Valaskjálf á Egilsstöðum

Fernir tónleikar hafa verið auglýstir á hótelinu Valaskjálf á Egilsstöðum um verslunarmannahelgi. Hljómsveitirnar Dúndurfréttir og Ljótu hálfvitarnir munu stíga á stokk auk Emmsjé Gauta og dúósins Óskars Péturssonar og Eyþórs Inga. Dúndurfréttir stíga á stokk þann 30. júlí, Emmsjé Gauti 31. júlí, Ljótu hálfvitarnir 1. ágúst og Óskar og Eyþór 2. ágúst.

Skipuleggjendur hafa verið gagnrýndir fyrir það á samfélagsmiðlum að engar konur muni flytja tónlistaratriði á hótelinu þessa helgi.

Síldarævintýri á Siglufirði

Ekki verður haldið formlegt Síldarævintýri á Siglufirði í ár í ljósi aðstæðna en til að lífga upp á götur bæjarins verður hvatt til hverfisskreytinga og götugrillhátíða. Skipulagðar götugrillveislur verða fimmtudagskvöldið 30. júlí. Þá verður ýmislegt um að vera í bænum, á skemmtistöðum, veitingastöðum, söfnum og setrum eins og aðrar helgar sumarsins.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×