Innlent

Aftur boðað til upplýsingafundar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá 88. upplýsingafundi almannavarna í síðustu viku.
Frá 88. upplýsingafundi almannavarna í síðustu viku. lögreglan

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis boða til upplýsingafundar í dag, örfáum dögum eftir að hafa boðað til „síðasta fundarins í bili“ Fundurinn hefst klukkan 14 venju samkvæmt og verður hann sýndur í beinni útsendingu á Vísi. 

Ætla má að boðað hafi verið til fundarins í dag vegna fjölgunar kórónuveirusmita hér á landi síðustu daga. Nú eru rúmlega 20 í einangrun vegna smits og hafa ekki verið fleiri síðan í maí. Hópsýking er komin upp á Akranesi sem rakin er til einstaklings sem kom til landsins 15. júlí síðastliðinn og sætti ekki heimkomusmitgát. 

Áttugasti og áttundi upplýsingafundur almannavarna fór fram á fimmtudag í síðustu viku, 23. júlí og var tilkynnt að það yrði að líkindum síðasti upplýsingafundurinn í bili. Verið væri að endurskoða upplýsingagjöf til almennings í faraldrinum til að létta álaginu af starfsmönnum framlínunnar. Í því samhengi var nefnt að að tölurnar á covid.is yrðu uppfærðar sjaldnar og aðeins verði haft samband við þá sem greinast með veiruna á landamærunum. Áður höfðu öll sem fóru í skimun við komuna til landsins fengið skilaboð frá almannavörnum.

Á fundi dagsins munu Alma D. Möller landlæknir, Kamilla Sigríður Jósefsdóttir staðgengill sóttvarnalæknis og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri fara yfir stöðu mála varðandi framgang COVID-19 faraldursins hér á landi.

Sem fyrr segir hefst fundurinn klukkan 14 og verður í beinni útsendingu á Vísi og sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×