Innlent

Kúkur í útilauginni og í barnalauginni á sama tíma

Jakob Bjarnar skrifar
Sundhöll Reykjavíkur. Þar varð slys um helgina. Tvö frekar en eitt. Á sama tíma.
Sundhöll Reykjavíkur. Þar varð slys um helgina. Tvö frekar en eitt. Á sama tíma. ítr

Starfsmenn Sundhallar Reykjavíkur þurftu að eiga við kúk í lauginni um helgina. Ásthildur Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri Sundhallarinnar segir afar sjaldgæft að það þurfi að eiga við annað eins og þetta. En það komi fyrir, líklega í flestum sundlaugum landsins.

„Já, það var kúkur í útilauginni og barnalauginni inni. Þeim var báðum lokað og farið í að þrífa. Það voru margir í sundi og … það hefur einhver ekki getað haldið í sér eða eitthvað,“ segir Ásthildur.

Hún segir að þegar annað eins og þetta komi uppá þurfi að loka lauginni, hreinsa og svo er laugin klórmæld. Og athugað hvort bakteríustig sé ásættanlegt þar til opnað er á ný.

Kúkur hér og kúkur þar kúkur allstaðar

Kona nokkur greinir frá því í dramatískri frásögn á Facebook að hún og fjölskyldan hafi farið í sund um helgina, í Sundhöll Reykjavíkur, og eftir um það bil hálftíma tóku þau eftir því að það var um það bil sjö sentímetra kúkur í lauginni. Þau gerðu viðvart og ungur sundlaugarvörður svarar: „Ohh, ég er nýbúinn að standa í þessu.“

Þeim varð ekki um sel drengjunum sem voru að kafa í innilauginni þegar þeir rákust á kúk sem maraði þar í hálfu kafi.ítr

Konunni fannst starfsmenn heldur seinir til að bregðast við þessu ástandi en Ásthildur segir að það hljóti að mega rekja til þess að það geti tekið tíma að taka til þau verkfæri og áhöld sem þarf til að bregðast við slíku.

„Við sjáum að barnalaugin inni er lokuð og þar er líka kúkur í lauginni. Við förum með krakkana í stóru innilaugina og buslum þar í sirka hálftíma. Við fórum svo út aftur að hlýja okkur í pottinum og sjáum að þá er stóra sundlaugin enn full af fólki!!! Við erum smá stund í pottinum, látum fólkið vita af þessu og förum svo bara uppúr,“ segir konan sem lýsir því yfir með viðeigandi merkum hversu ógeðslegt henni þótti þetta standa allt.

Fólk og börn að leik í kringum kúkinn

„Hugsa sér allt fólkið og börnin sem eru búin að synda og leika sér þarna í kringum kúkinn,“ spyr hún og lætur sér ekki duga eitt spurningarmerki, heldur tvö. „Kannski einhver með kúk í hárinu,“ og með fylgir táknkall.

Nýleg útiaðstaða við Sundhöll Reykjavíkur er stórglæsileg en það aftraði þeim sem varð brátt í sundbrók að láta gossa.ítr

„Þetta er bara ekki í lagi!! Ég er svo hneyksluð að ég á ekki orð! Algjör viðbjóður! Ég skil ekkert í sjálfri mér að hafa ekki hrópað bara yfir allt og látið alla í lauginni vita! Á ekki kúkurinn að njóta vafans? Leita almennilega? Senda fólk uppúr meðan verið er að leita? Hvernig er viðbragðsáætlun sundlaugarvarða í svona málum? Á að leyna þessu fyrir gestunum eða á að láta alla vita? Þetta þarf eitthvað að skoða,“ segir konan og klikkir út með: „OJJJBARA!!!!🤢😱💩“

Að láta vaða í sundi ekki óþekkt fyrirbæri

Svo virðist sem kúkur í lauginni sé til þess að gera þekkt fyrirbæri. Í aukaþáttum sem gerðir voru í tengslum við Spurningakeppni framhaldsskólanna, en þá voru kunnir fyrrverandi keppendur fengnir til að etja kappi, var ein aukaspurningin sem dómari þáttanna, Vilhelm Anton Jónsson lét falla svohljóðandi: „Hefur þú pissað í sundi?“ Þá eins og þetta væri eitthvað sem fólk léti eftir sér. 

Listamenn þjóðarinnar hafa einnig gert sér mat úr þessu sérkennilega og ömurlega fyrirbæri en hljómsveitin Súkkat samdi og flutti lag sem heitir einfaldlega Kúkur í lauginni.

Og hinir góðkunnu spaugarar og grallarar í Tvíhöfða gerðu sér einnig mat úr fyrirbærinu í einu af sínu eftirminnilegasta atriði. Þannig að svo virðst sem kúkur í lauginni sé eitthvað sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur sundlauganna: „Hver kannast til dæmis ekki við pínlegar uppákomur í sundlaugunum?“ Spyr sá sem ekki veit.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.