Innlent

Parið fannst í Hlöðuvík

Sylvía Hall skrifar
Parið hafði lent í vanda milli Fljótavíkur og Hlöðuvíkur á Hornströndum.
Parið hafði lent í vanda milli Fljótavíkur og Hlöðuvíkur á Hornströndum. Vísir/Vilhelm

Unga parið sem leitað var að á Hornströndum í nótt er fundið. Fólkið hafði náð að koma sér í neyðarskýlið í Hlöðuvík og fannst rétt fyrir klukkan átta í morgun.

Níu björgunarsveitarmenn leituðu að parinu í nótt sem hafði óskað eftir aðstoð rétt fyrir miðnætti. Vegna þess hversu lélegt farsímasamband er á svæðinu náði parið ekki að láta vita að það væri komið í öruggt skjól en hittu björgunarsveitarmenn þegar þeir komu að neyðarskýlinu.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa hjá Landsbjörg, bar fólkið sig vel þegar björgunarsveitarmenn mættu í skýlið. Þau höfðu náð að koma sér úr þeim ógöngum sem þau lentu í og í öruggt skjól.

Leitaraðstæður voru nokkuð erfiðar þar sem mikil þoka var á svæðinu. Gönguhópar sem tóku þátt í leitinni voru ferjaðir á svæðið með björgunarskipinu Gísla Jóns.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×