Innlent

Lögregla eltist við trampólín í rokinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hvasst hefur verið á höfuðborgarsvæðinu í nótt og í morgun.
Hvasst hefur verið á höfuðborgarsvæðinu í nótt og í morgun. Vísir/Vilhelm

Lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum hafa ítrekað verið kallaðir út vegna foktjóns í nótt og í morgun. Í báðum umdæmum hafa trampólín verið á ferð og flugi og valdið skemmdum.

Í tilkynningu frá lögreglu á Suðurnesjum segir að tvö trampólín hið minnsta hafi hafnað á bifreiðum í rokinu og valdið tjóni. Þá hafa kollegar þeirra á höfuðborgarsvæðinu einnig þurft að eiga við þakplötur sem fokið hafa af húsum.

Mjög hvasst hefur verið á suður- og vesturhluta landsins í nótt og í morgun en öllu lygnara fyrir austan. Gular viðvaranir eru í gildi vegna hvassrar norðaustanáttar á Vestfjörðum og Breiðafirði.

Um önnur verkefni lögreglu í nótt segir í tilkynningum að lögregla á höfuðborgarsvæðinu hafi þurft að sinna fjölmörgum hávaðakvörtunum. Þá hafa nokkrir ökumenn á Suðurnesjum verið kærðir fyrir of hraðan akstur. Nokkur umferðaróhöpp hafi jafnframt orðið í umdæminu en engin alvarleg slys á fólki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×