Innlent

Bráðnauðsynlegt að grípa til aðgerða ef ekki á illa að fara

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Spáð er allt að níu prósenta atvinnuleysi í ágúst og óttast er að útlitið á vinnumarkaði muni dökkna á haustmánuðum. Forseti ASÍ segir bráðnauðsynlegt að grípa til aðgerða ef ekki eigi illa að fara.

Í júnímánuði nam atvinnuleysi 7,5 prósentum og er mjög svipað nú í júlí, eða á bilinu 7,3-7,7 prósent, samkvæmt nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar. 

Útlit er fyrir að atvinnuleysi muni aukast nokkuð skarpt í ágúst og með haustinu þegar áhrifa hópuppsagna fer að gæta, en alls hefur 7.400 verið sagt upp störfum í hópuppsögnum síðustu mánuði. Atvinnuleysi í landinu gæti þá numið frá 8-9%, samkvæmt skýrslunni.

„Það er fullt tilefni til að hafa miklar áhyggjur af stöðunni. Við vissum það strax þegar Covid kom upp að þetta gæti orðið mjög erfið staða,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ. 

Það séu góðar og slæmar fréttir í skýrslunni.

„Slæmu fréttirnar eru þær að atvinnuleysi er að raungerast og góðu fréttirnar eru þær að auglýsingar eftir starfsfólki eru fleiri samkvæmt þessari skýrslu en var á sama tíma í fyrra,“ segir Drífa. 

Fólk á aldursbilinu 30 til 50 ára er fjölmennast á skrá hjá Vinnumálstofnun. Fjörutíu prósent af þeim sem eru á atvinnuleysisská eru útlendingar.

„Í fyrsta lagi eru óvissuþættirnir töluverðir. Við vitum ekki hvað verður með ferðaþjónustuna í haust og við vitum ekki heldur hlutfall erlendra ríkisborgara sem fara aftur til síns heima,“ segir Drífa Snædal. 

Ef ekki eigi illa að fara í haust sé bráðnauðsynlegt að hækka atvinnuleysisbætur.

„Og lengja í tekjutengdu tímabili atvinnuleysisbóta. Þetta höfum við verið að benda stjórnvöldum á síðan þessi staða kom upp. Við gerum þá kröfu að það verði hlustað á það en við höfum ekki séð þess merki enn þá að það eigi að grípa til aðgerða. Það er orðið mjög aðkallandi,“ segir Drífa. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×