Innlent

Lægðin stjórnar veðrinu næstu daga

Sylvía Hall skrifar
Það má búast við rigningu næstu daga.
Það má búast við rigningu næstu daga. Vísir/Vilhelm

Lægðin sem nálgast frá Grænlandshafi mun stjórna veðrinu næstu daga og hreyfist hún norðaustur yfir landið á morgun og hinn. Virðist hún ætla að verða óvenjudjúp miðað við árstíma, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Því má búast við vaxandi vindi með rigningu í dag og hvessir undir Eyjafjöllum síðdegis. Þá verður einnig hvasst á miðhálendinu í kvöld og tekur gul viðvörun gildi um kvöldmatarleytið þar. Búist er við 13 til 18 metrum á sekúndu en vindstyrkur getur náð allt að 25 metrum á sekúndu í hviðum og er göngufólk og fólk í tjöldum sérstaklega varað við aðstæðum á svæðinu.

Ferðalangar og útivistarfólk er því hvatt til þess að kynna sér veðurspár vel áður en lagt er af stað í ferðalög. Grjóthrun og skriður geta orðið í fjalllendi þegar rignir og má reikna með vatnavöxtum í ám.

Á morgun snýst í norðanátt og bætir í rigningu á Vestfjörðum. Það kólnar í veðri á öllu á landinu og er spáð ákveðinni norðanátt á norðanverðu landinu um helgina. Veðrið verður þó þurrara og hlýrra fyrir sunnan og má reikna með að norðanskotið gangi niður á mánudag.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:

Gengur í suðvestan 13-18 m/s við SA-ströndina en norðaustan 13-20 NV-til. Annars hægari og rigning í öllum landshlutum. Hiti víða 7 til 17 stig, hlýjast og úrkomuminnst á NA-landi.

Á föstudag:

Allhvöss eða hvöss norðanátt, rigning og svalt veður á V-verðu landinu, en mun hægara, hlýrra og úrkomuminna eystra.

Á laugardag og sunnudag:

Útlit fyrir áframhaldandi norðanátt með kalsarigningu á N-verðu landinu, en bjartviðri og mildara veðri sunnan heiða.

Á mánudag:

Lægir líklega og léttir til víða um land og hlýnar heldur, en áfram lítilsháttar væta og fremur svalt NA-til.

Á þriðjudag:

Lítur út fyrir hægar suðlægar áttir, lítilsháttar vætu hér og þar og hlýnandi veður norðan heiða.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.