Innlent

Fjallvegir opna hver af öðrum

Telma Tómasson skrifar
Færðin á öllu landinu.
Færðin á öllu landinu. vegagerðin

Vegagerðin er nú að opna fjallvegi einn af öðrum. Almennt má segja að verið sé að opna helstu fjallvegi frekar seint í ár, þar sem snjóþyngsli hafa verið mikil og aurbleyta víða. Þar sem búið er að opna er hins vegar ágætlega fært og Vegagerðin hefur lagað helstu skemmdir á vegum. Ferðalangar eru beðnir um að gæta að því að heldur mikið er í ám þessa stundina út af leysingum. 

Helstu leiðir eru nú opnar; Kjalvegur var opnaður fyrst fyrir um þremur vikum, en hann er yfirleitt snjóléttastur hálendisvega. Sprengisandur var opnaður fyrir helgi og Skagafjarðarleið einnig. Síðasti leggur Fjallabaks-Syðri var opnaður í morgun.

Örfaár leiðir eru þó enn lokaðar; á Norðurlandi er Eyjafjarðarleið enn lokuð, en þar er mikill snjór og sama má segja um Fjörður. Allflestir vegirnir eru eingöngu færir stærri bílum og jeppum með fjórhjóladrifi, einstaka leið má þó fara yfir á jepplingi.

Kort með ástandi hálendisvega má finna á vefsíðu Vegagerðarinnar og er mjög mikilvægt að kynna sér það áður en lagt er af stað og einnig eru ítarlegar upplýsingar veittar í síma 1777.

Málum fjölgar ár frá ári sem lögreglan á Suðurlandi sinnir á hálendinu í samræmi við aukinn áhuga útlendra og innlendra ferðamanna. Mestur er áhuginn á Landmannalaugum og Þórsmörk og eru flest verkefni lögreglunnar á þeim svæðum.

Útköll eru algengust vegna slysa, en einnig hefur tilkynningum vegna utanvegaaksturs fjölgað töluvert síðustu ár. Umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi nær frá Litlu-Kaffistofunni og allt austur að Hvalnesskriðum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.