Fréttir

Gersemar unnar við ofn úr hrossataði

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Fanndís Huld Valdimarsdóttir er sú eina á landinu sem kann að gera glerperlur að hætti víkinga. Hún hefði verið höfðingjafrú eða völva  ef hún hefði borið svo mikla glerperlufesti á víkingaöld. 
Fanndís Huld Valdimarsdóttir er sú eina á landinu sem kann að gera glerperlur að hætti víkinga. Hún hefði verið höfðingjafrú eða völva  ef hún hefði borið svo mikla glerperlufesti á víkingaöld.  Vísir/Baldur

„Glerperlur voru gull og gimsteinar á víkingaöld. Þær voru notaðar sem gjaldmiðill og miðað við magnið sem ég er með á mér hefði ég verið höfingjafrú eða völva,“ segir Fanndís Huld Valdimarsdóttir sem sýndi krökkum á Landnámssýningunni í dag hvernig gler er brætt og mótað í perlur yfir opnum eldi.  

„Ég er glerblásari og lærði glerperlugerð í leiðinni í Svíþjóð. Ég sökkti mér í að læra að gera víkingaglerperlur árið 2013 ásamt fornleifafræðingi. Við fengum styrk til verkefnisins og til  að finna út hvernig ofnarnir voru gerðir sem eru notaðir í perlugerðina. Ofnarnir miðast við fornleifafundi og eru gerðir úr leir og hrossataði. Glerperlumeistarar á sínum tíma voru farandsverkamenn sem fóru á milli markaða þar sem þeir gátu selt vöruna sína. Ofnarnir eru eiginlega einnota þannig að þeir byggðu ofnana á hverjum stað.  Ég geri mína ofna sjálf og nota 2-3 sinnum,“ segir listakonan. 

Hún segir að það þurfi mikla þolinmæði í að gera glerperlur.

 „Maður mótar glerið yfir opnum eldinum hægt og rólega og skreytir þær í leiðinni. Krökkum finnst mjög gaman að fylgjast með aðferðinni og spyrja alveg dásamlegra spurninga. Börn eru svo opin og forvitin,“ segir Fanndís sem rekur Gallery Flóa á Selfossi þar sem hægt er að fylgjast með henni vinna gersemarnar. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.