Innlent

Eins árs barn greindist með Covid-19

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá skimun Íslenskrar erfðagreiningar fyrir kórónuveirunni sem veldur Covid-19.
Frá skimun Íslenskrar erfðagreiningar fyrir kórónuveirunni sem veldur Covid-19. Vísir/Vilhelm

Eins árs gamalt barn greindist með Covid-19 hér á landi í gær. Barnið er einkennalaust eins og er.

Þetta kemur fram á vef RÚV. Eins og áður hefur verið greint frá greindist kona sem kom erlendis frá með kórónuveiruna í fyrradag. Hún hafði þá verið hér á landi í tíu daga. Konan er móðir barnsins sem greindist í gær, að því er fram kemur hjá RÚV.

Haft er eftir Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni að færri en tíu hafi farið í sýnatöku í tengslum við smit konunnar og fimmtán séu í sóttkví vegna smitsins. Smit konunnar tengist ekki þremur öðrum smitum sem upp hafa komið annars staðar en við landamæraskimun, en þau greindust öll hjá knattspyrnufólki í efstu deildum karla og kvenna hér á landi.

Fyrr í dag var greint frá því að tvö smit kórónuveirunnar hefðu greinst við landamæraskimun á síðasta sólarhring, og eitt hjá Íslenskri erfðagreiningu. Smitið sem ekki greindist við landamærin greindist eins og áður sagði í barninu sem um ræðir.

Virkum smitum fækkar en fólki í sóttkví fjölgar

Virk smit á landinu eru tíu og fækkaði þeim um eitt á milli daga. Þá voru 730 sýni tekin við landamæraskimun síðasta sólarhringinn, 92 hjá Íslenskri erfðagreiningu og 178 hjá veirufræðideild Landspítala.

Í sóttkví eru nú 440 og fjölgaði þeim um sex milli daga. Staðfest smit frá upphafi faraldurs eru orðin 1.850. Alls hafa 1828 náð bata.

Innanlandssmit frá 15. júní eru nú orðin átta. Tuttugu og átta smit má rekja til útlanda en fjögur eru skráð með óþekkt upprunaland á Covid.is.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.