Innlent

600 nemendur útskrifuðust frá HR

Andri Eysteinsson skrifar
Glæsilegir nemendur á tæknisviði HR útskrifuðust fyrir hádegi í dag.
Glæsilegir nemendur á tæknisviði HR útskrifuðust fyrir hádegi í dag. Aðsend

Sex hundruð nemendur voru í dag brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík við hátíðlegar athafnir í Hörpu. Vegna takmarkana vegna faraldurs kórónuveirunnar var brautskráningunni skipt í tvennt og voru nemendur á tæknisviði skólans brautskráðir fyrir hádegi og nemendur á samfélagssviði eftir hádegi.

Alls brautskráðust 437 nemendur úr grunnnámi, 160 úr meistaranámi og þrír úr doktorsnámi, þar á meðal fyrsti doktorsneminn sem útskrifast frá sálfræðideild HR.

Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR sagði í ræðu sinni við athafnirnar að samkeppni hafi gert miklu meira en að styrkja HR. „Hún hefur skilað ótrúlegum framförum fyrir háskólakerfið í heild sinni. Í dag er háskólastarf á Íslandi öflugra, breiðara og sterkara en ella hefði verið og það er til hagsbóta fyrir okkur öll,“ sagði Dr. Ari.

Fyrir hönd útskriftarnema fluttu þau Þórður Atlason, BSc í hugbúnaðarverkfræði og Eygló María Björnsdóttir BSc í viðskiptafræði og tölvunarfræði ávörp en verðlaun Viðskiptaráðs Íslands fyrir árangur í grunnnámi hlutu þau Hákon Ingi Stefánsson diplóma í rafiðnfræði, Kristjana Ósk Kristinsdóttir BSc í heilbrigðisverkfræði, Gunnar Guðmundsson BSc í íþróttafræði, Íris Þóra Júlíusdóttir BA í lögfræði, Jóhanna Margrét Gunnarsdóttir BSc í sálfræði, Hávar Snær Gunnarsson BSc í hagfræði og fjármálum og Þórður Friðriksson BSc í hugbúnaðarverkfræði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×