Lífið

Standa fyrir sænskri Mið­sumar­há­­­tíð í Gríms­nesinu um helgina

Atli Ísleifsson skrifar
Håkan Juholt, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, og Anna Árnadóttir frá Lava Village, Hraunborgum á Miðsumarhátíðinni í fyrra.
Håkan Juholt, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, og Anna Árnadóttir frá Lava Village, Hraunborgum á Miðsumarhátíðinni í fyrra. Aðsend/Getty

Sænsk sumarstemmning verður allsráðandi í Hraunborgum í Grímsnesi um helgina þar sem haldið verður upp á Miðsumarhátíðina (s. midsommar) sem allir þeir sem búið hafa í Svíþjóð þekkja vel.

Það eru staðarhaldarar í Hraunborgum og sænska sendiráðið sem standa fyrir hátíðinni þar sem dagskráin verður þétt og margt í boði fyrir alla fjölskylduna.

Håkan Juholt, sendiherra Svíþjóðar á Íslandi, segir miðsumarhátíðina (s. midsommar) vera þessi stóra, dularfulla hátíð Svía sem fólk hvaðanæva úr heiminum sé svo forvitið um.

„Ég hef fundið fyrir miklum áhuga meðal Íslandinga á sænska midsommar, enda hafa margir fengið að upplifa hana af eigin raun í Svíþjóð. Þess vegna skipuleggjum við þessa stóru hátíð hér og vonumst til að hún verði framvegis endurtekin á hverju ári.“

Håkan segir að til standi að reisa hina blómum prýddu maístöng og svo verði dansað í kringum hana.

„Fyrir Svía er midsommar hinn raunverulegi þjóðhátíðardagur. Þessi mikla sumarhátíð þar sem kynslóðirnar koma saman. Maturinn er mikilvægur liður í hátíðahöldunum – síldin og snafsinn mikilvægust. Á laugardaginn verður því kennsla um síldina og snafs.”

Håkan segist sjálfur hafa samið nokkrar spurningar í spurningagöngu (s. tipspromenad) og svo sé loksins búið að þýða lagið Små grodorna yfir á íslensku. 

„Það er nauðsynlegt að syngja það lag þegar dansað er í kringum stöngina. Við Svíar eru vön því að rigni á midsommar en þá verður stemmningin þeim mun betri í partýtjöldunum. Við erum því reiðubúin öllu veðri á laugardag,” segir Håkan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×