Innlent

Samkomutakmarkanir settu mark sitt á hátíðarhöld

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Forsætisráðherra segir að grannt verði fylgst með því hvernig opnun landamæranna tekst til og brugðist verði við með afgerandi hætti gerist þess þörf. Ráðherrann ávarpaði gesti á Austurvelli í dag en samkomutakmarkanir settu mark sitt á hátíðarhöld í tilefni af 17. júní um allt land.

Þjóðhátíðardeginum var fangað með nokkuð óhefðbundnum hætti í dag vegna samkomutakmarkanna vegna kórónuveirunnar. Ekki fleiri en fimm hundruð mega koma saman. Uppákomur voru víða um land.

Fjölmargir komu saman í blíðunni á Klambratúni í dag til að fagna deginum.Vísir/Sigurjón

Á Austurvelli voru hátíðarhöld með fremur hefðbundnum hætti þar sem Katrín Jakobsdóttir hélt meðal annars ræðu. Hún gerði opnun landamæranna að umtalsefni í ræðu sinni.

„Stjórnvöld munu fylgjast grannt með hvernig til tekst og bregðast hratt við með afgerandi hætti, gerist þess þörf. Við verðum áfram að gæta ítrustu varfærni, enda geisar faraldurinn enn víða um heim og gæti blossað upp aftur hér.“

Hún sagði réttinn til að mótmæla mikilvægan. „Ég tek undir með þeim sem mótmæla misrétti og kúgun um heim allan, nú á undanförnum vikum rótgrónu kynþáttamisrétti.“

Mótmælendur mættu á Austurvöll

Arnar Rúnar Marteinsson aðalvarðstjóri segir að í við færri hafi mætt á Austurvöll í dag til að fylgjast með hátíðarhöldunum en oft áður. Hann telur samkomutakmarkanir hafi verið virtar að fullu og ekki fleiri en fimm hundruð gestir verið á svæðinu. „Ég hef ekki trú á því. Þetta hefur allt verið innan marka.“

Nokkrir mótmælendur mættu á Austurvöll. Annars vegar kröfðust þeir þess að fá nýja stjórnarskrá og hins vegar að breytingar verði gerðar á kvótakerfinu.

Edda Björgvinsdóttir leikkona var fjallkonan í ár.Vísir/Sigurjón

Edda Björgvinsdóttir leikkona var fjallkonan í ár en hún frumflutti ljóð í tilefni dagsins. „Honum lauk þessum vetri sem sífellt minnti á sig og færði okkur óveður, snjóflóð, jarðskjálfta, farsótt. Hann er liðinn þessi vetur.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×