Innlent

Lögregla búin að finna tvo þeirra Rúmena sem lýst var eftir

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Vísir/Vilhelm

Lögregla er búin að finna tvo af þeim þremur Rúmenum sem lýst var eftir í gær vegna gruns um að þeir séu smitaðir af kórónuveirunni. Sá þriðji er enn ófundinn.

Þetta staðfestir Víðir Reynisson í samtali við fréttastofu. Mennirnir komu til landsins fyrir fimm dögum í sex manna hópi og hafa myndir af þeim úr eftirlitsvélum á flugvellinum í Keflavík verið birtar í fjölmiðlum.

Víðir segir að lögreglu hafi tekist að hafa hendur í hári mannanna eftir ábendingar frá almenningi og hafi þeir verið á sitt hvoru hótelinu. Mennirnir komu til landsins síðastliðinn þriðjudag með flugi frá London. 

Hinir þrír úr hópnum voru handteknir á föstudag vegna gruns um þjófnað úr verslunum á Selfossi. Við rannsókn málsins kom í ljós að þeir áttu að vera í sóttkví og reyndust tveir þeirra með virk Covid-19 smit. Víðir segir mennina sem nú hafði náðst hafi verið einkennalausir en að þeir hafi verið sendir í sýnatöku.

Mennirnir þrír, sem handteknir voru á föstudag,  eru enn í haldi lögreglu og vistaðir hjá lögreglunni á Suðurlandi en þeir verða í dag færðir í farsóttarhúsið á Rauðarárstíg þar sem þeir verða látnir sæta einangrun undir eftirliti lögreglu.

Sextán lögreglumenn eru í sóttkví vegna málsins, þar af ellefu hjá lögreglunni á Suðurlandi.


Tengdar fréttir

Þetta eru mennirnir sem lögreglan lýsir eftir

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti rétt í þessu Facebook-færslu þar sem birtar eru myndir af tveimur þeirra þriggja manna sem lýst er eftir vegna gruns um að þeir séu smitaðir af kórónuveirunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.