Innlent

Ólafur William Hand sýknaður fyrir Lands­rétti

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips.
Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips. Vísir

Ólafur William Hand, fyrrverandi upplýsingafulltrúi og forstöðumaður markaðsmála á alþjóðasviði Eimskips, var í dag sýknaður af kæru um ofbeldi í garð barnsmóður sinnar fyrir Landsrétti. Fram kemur í dómnum að sönnunargildi þeirra gagna sem voru tali styðja vitnisburð brotaþola hafi verið veikara en talið var af Héraðsdómi Reykjavíkur. Því hafi ekki verið komin fram næg sönnun fyrir sekt Ólafs svo að hafið væri yfir skynsamlegan vafa.

Ólafur var dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ofbeldi í garð barnsmóður sinnar að viðstöddu barni þeirra í júlí 2016. Honum var einnig gert að greiða henni 400 þúsund krónur í bætur. Dómurinn var kveðinn upp í desember 2018.

Ólafur var sakaður um að hafa tekið barnsmóður sína hálstaki, þrengt ítrekað að hálsi hennar og hrint henni þannig að hún féll í gólfið þegar barnsmóðir hans kom að heimili Ólafs í fylgd með sambýlismanni sínum og fulltrúa lögreglu sem fylgdist með. Ætluðu þau til útlanda með barn þeirra Ólafs sem hafði krafðist upplýsinga um fyrirhugað ferðalag. Fór barnsmóðirin í óleyfi inn á heimili Ólafs til að ná í barnið.

Hann var einnig ákærður fyrir að hafa brotið barnaverndarlög þar sem barnið var talið hafa verið vitni að ofbeldinu en hann var sýknaður af því.

Forsaga málsins er áralöng forræðisbarátta Ólafs við barnsmóður sína. Sagði hann sína hlið málsins í viðtali í Íslandi í dag á Stöð 2 árið 2017 þar sem hann sakaði barnsmóður sína um tálmun. Var barnsmóðir Ólafs afar ósátt við viðtalið og kærði fréttastofu Stöðvar 2 til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands.

Siðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið um brot á siðareglum að ræða. Þó hefði barnsmóðurinni verið sýnd lítilsvirðing því símtölum og tölvupóstum hennar hefði ekki verið svarað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×