Innlent

Mongús fljótur að skila sér aftur heim

Atli Ísleifsson skrifar
Kötturinn Mongús hefur gert mörgum bæjarbúanum í Hveragerði lífið leitt síðustu ár.
Kötturinn Mongús hefur gert mörgum bæjarbúanum í Hveragerði lífið leitt síðustu ár.

„Hann skilaði sér heim mjög fljótlega. Síðan hefur hann nokkrum sinnum skroppið aðeins út en kemur alltaf aftur og er heima.“

Þetta hafði Hveragerðisbúinn Hörður Vignir Sigurðsson að segja um ferð kattarins Mongúsar út af heimili í gær og sagt var frá í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Hörður segir Mongús hafa það bara ljómandi gott og sé hann orðinn eins og heimakær húsköttur. „Það kemur manni svolítið á óvart þar sem þetta er dýr sem er búið að vera í mörg ár á þvælingi, þó að hann hafi haft smá afdrep hjá okkur. Hann hefur svolítið haft þorpið undir.“

Mongús hafði um árabil verið á vergangi í Hveragerði eftir að eigandi hans lést og verið þekktur í bænum fyrir að fara inn á heimili í óþökk annarra og hrella aðra ketti. Hann er nú orðinn heimilisköttur hjá hjónunum Herði og Ingibjörgu Bjarnadóttur.

Sjálfboðaliðar Villikatta höfðu lengi reynt að ná honum sem hafðist að lokum þegar þeir fengu veður af því að Mongús væri daglegur gestur hjá þeim Herði og Ingibjörgu. Mongús var þá illa haldinn og eftir að hlúð var að honum í nokkrar vikur hjá Villiköttum og fluttist að því loknu inn á heimili Harðar og Ingibjargar var honum svo loksins hleypt út í gær.

Hörður segir að enn hafi engar kvartanir borist eftir útiveru Mongúsar í gær og í morgun og sömuleiðis hafi ekki verið gerðar neinar athugasemdir í Hveragerðissíðum á Facebook.


Tengdar fréttir

Segja Mongús algjörlega breyttan

Kötturinn Mongús, sem hefur verið á vergangi í Hveragerði í mörg ár, er nú orðin heimilisköttur hjá hjónum sem hafa reglulega gefið honum mat.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×