Innlent

Handtekinn þegar hann reyndi að fara af vettvangi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af þónokkrum ökumönnum sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af þónokkrum ökumönnum sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum fíkniefna. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu brást í á níunda tímanum í gærkvöldi við tilkynningu um umferðaróhapp þar sem tjónvaldur reyndi að komast gangandi frá vettvangi. Atvikið átti sér stað í Árbæ.

Þegar lögregla kom á vettvang sást viðkomandi setjast inn í aðra bifreið, sem hafði stöðvað fyrir honum, og ætlaði hann sér að fara af vettvangi. Bifreiðin var stöðvuð og tjónvaldurinn handtekinn. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Handtekinn grunaður um fjölda brota

Þá var maður handtekinn í Mosfellsbæ um svipað leyti. Sá var grunaður um nytjastuld bifreiðar, heimilisofbeldi, akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum, vörslu fíkniefna og fleira, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.

Akstur undir áhrifum og skjalafals

Þá stöðvaði lögregla bifreið í Breiðholti laust fyrir miðnætti. Ökumaður hennar var handtekinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum og skjalafals, þar sem röng skráningarnúmer eru talin hafa verið á bifreið hans. Skráningarnúmer bifreiðarinnar voru í kjölfarið klippt af.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði í nótt fjóra aðra ökumenn grunaða um akstur undir áhrifum fíkniefna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.