Innlent

Enn mikill erill hjá lögreglu

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt, eins og daginn áður. Rúmlega hundrað mál voru skráð í dagbók lögreglunnar frá fimm í gær til fimm í morgun og ellefu aðilar voru vistaðir í fangageymslu. Flest öll málin virðast hafa átt sér stað í miðbæ Reykjavíkur og nærliggjandi hverfum.

Á sjötta tímanum í gær var maður handtekinn vegna líkamsárásar og eignaspjalla við bar. Sá var vistaður í fangageymslu en sá sem hann mun hafa ráðist á hlaut minni háttar áverka. Upp úr miðnætti var svo tilkynnt um rán þar sem tveir menn réðust á einn og rændu af honum tösku og heyrnartólum.

Sjá einnig: Mjög mikið gekk á hjá lögreglunni

Lögreglan handtók konu í Laugardalnum sem grunuð er um vörslu og framleiðslu fíkniefna. Þá var maður handtekinn í miðbænum í nótt fyrir að brjótast inn í bíla. Annar var handtekinn á athafnasvæði Eimskipa í gærkvöldi og er hann grunaður um húsbrot og eignaspjöll.

Samkvæmt dagbók lögreglu var nokkuð um slys í gær. Um klukkan sex meiddist kona á höfði í rennibraut í sundlaug. Sú var flutt til aðhlynningar. Skömmu fyrir miðnætti barst tilkynning um slys á Hlíðarenda. Þar hafði maður dottið á andlitið niður steyptar tröppur. Hann rotaðist og hlaut mikla áverka og var fluttur á Bráðadeild til aðhlynningar.

Þá datt kona í stiga á veitingahúsi í miðbænum skömmu fyrir tíu í gærkvöldi. Hún er talin hafa misst meðvitund og var illa áttuð. Því var hún einnig flutt á Bráðadeild til aðhlynningar.

Um tvö leytið í nótt barst tilkynning um mann sem ók rafskútu á bifreið og braut hann mögulega tönn. Maðurinn er grunaður um ölvunarakstur.

Lögreglan stöðvaði bíl á 105 kílómetra hraða á Kringlumýrarbraut í gærkvöldi en þar er 80 km hámarkshraði. Þar að auki er ökumaðurinn grunaður um ölvunarakstur. Lögreglan stöðvaði einnig númeralausan og ótryggðan bíl í nótt. Ökumaður hans er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og að aka ítrekað án réttinda.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.