Lífið

Jimmy Fall­on biðst inni­legrar af­sökunar á 20 ára gömlum skets

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jimmy Fallon í gervi Chris Rock í sjónvarpsþættinum SNL árið 2000.
Jimmy Fallon í gervi Chris Rock í sjónvarpsþættinum SNL árið 2000. Skjáskot

Bandaríski spjallþáttastjórnandinn Jimmy Fallon baðst í gær afsökunar á því að hafa brugðið sér í svokallað „blackface“-gervi í sjónvarpsþættinum Saturday Night Live, hvar hann var leikari um árabil, árið 2000.

Myndband af umræddu atriði gekk í endurnýjun lífdaga á samfélagsmiðlum á mánudag og í kjölfarið kölluðu margir eftir því að Fallon segði af sér sem stjórnandi spjallþáttarins Tonight Show. Í atriðinu bregður Fallon sér í gervi Chris Rock, grínista og meðleikara hans í þáttunum á sínum tíma, og hefur látið dekkja talsvert á sér húðina til að líkjast Rock, sem er svartur.

Slíkt er iðulega kallað „blackface“, þ.e. þegar hvítt fólk málar sig dökkt til að líkjast svörtu fólki, og þykir athæfið grundvallast á kynþáttafordómum. Það á sér einkum langa sögu í Bandaríkjunum. Hluta úr umræddu atriði má sjá hér að neðan.

Fallon birti í kjölfarið yfirlýsingu á Twitter-reikningi sínum í gær og baðst afsökunar á hinu 20 ára gamla innslagi.

„Árið 2000, þegar ég var í SNL, tók ég þá hræðilegu ákvörðun að herma eftir Chris Rock, í „blackface“. Það er ekki hægt að afsaka þetta. Mér þykir mjög fyrir því að hafa tekið þessa óumdeilanlega særandi ákvörðun og þakka ykkur öllum fyrir að gera mig ábyrgan fyrir henni,“ skrifaði Fallon á Twitter.

Fyrsti þáttur SNL var frumsýndur árið 1975 og í gegnum tíðina hafa hvítir leikarar þáttarins margir brugðið sér í gervi svartra, oft með því að dekkja á sér húðina líkt og Fallon í umræddu atriði. Þá hefur jafnframt verið bent á í kjölfar málsins nú að aðrir grínistar, til dæmis spjallþáttastjórnandinn Jimmy Kimmel, hafi einnig stigið á stokk í „blackface“.

Þá er orðið frægt þegar gamlar myndir af Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada með svartmálað andlit fóru í dreifingu í fyrra. Trudeau baðst afsökunar á athæfinu. Þá hafa sambærileg mál komið upp hér á landi. Rapparinn Kristinn Óli Haraldsson, betur þekktur sem Króli, gagnrýndi til að mynda hljómsveitina The Hefners sumarið 2018 fyrir að klæðast „blackface“-gervi á tónleikum á Mærudögum á Húsavík.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×