Kynningarfundur þar sem farið verður yfir útfærslu á Ferðagjöf, stafrænu gjafabréfi stjórnvalda, verður haldinn nú klukkan níu. Fundinum verður streymt í beinni á Vísi í spilaranum hér neðar í fréttinni.
Smáforrit sem hefur verið þróað fyrir verkefnið verður kynnt á fundinum, auk þess sem þar verður skýrt með hvaða hætti fyrirtæki skrá sig til að taka á móti gjöfinni, sem og hvernig almenningur getur nýtt sér hana.
Stafrænu gjafabréfin eru liður í aðgerðum stjórnvalda til að veita efnahagslífinu og einkum ferðaþjónustunni viðspyrnu á tímum kórónuveirufaraldurs.
Þannig er Ferðagjöfin hugsuð handa Íslendingum til að verja í ferðaþjónustu innanlands. Ráðgert er að hver Íslendingur fá um fimm þúsund krónur í sinn hlut. Þeir sem ekki ætla að njóta gjafarinnar geta gefið öðrum gjöfina.
Dagskrá fundarins í dag er sem hér segir:
Opnun fundar
- Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamálaráðherra ávarpar fundinn.
- Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri opnar fundinn, hvetur fyrirtæki til þátttöku og að taka vel á móti Íslendingum á ferðalagi í sumar.
Ferðagjöf
- Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri hjá Stafrænu Íslandi og Þórhildur Gunnarsdóttir, eigandi Parallel ráðgjafar kynna Ferðagjöf, smáforritið og þá hlið sem snýr að fyrirtækjunum.
Ferðalag.is
- Halldór Arinbjarnarson, upplýsingastjóri hjá Ferðamálastofu kynnir uppfærslu á Ferðalag.is og tengingu við Ferðagjöf.
Hvernig ætla Íslendingar að ferðast í sumar?
- Oddný Þóra Óladóttir, hjá rannsókna- og tölfræðisviði Ferðamálastofu kynnir niðurstöður úr nýrri könnun á vegum Ferðamálastofu um ferðaáform Íslendinga árið 2020.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar stýrir fundinum.