Innlent

Norræna siglir farþegalaus til Íslands

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hér má sjá Norrænu sigla frá Þórshöfn í Færeyjum á leið sinni til Seyðisfjarðar.
Hér má sjá Norrænu sigla frá Þórshöfn í Færeyjum á leið sinni til Seyðisfjarðar. Getty/ullstein bild

Farþegaferjan MS Norræna siglir ekki með farþega frá Færeyjum til Seyðisfjarðar næstu tvær vikurnar eins og til hafði staðið. Vöruflutningar halda þó áfram.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Smyril Line, sem rekur ferjuna. Þó svo að engin ástæða sé tilgreind fyrir ákvörðuninni má ætla að útbreiðsla kórónuveirunnar leiki þar lykilhlutverk, en tilkynningin flokkast undir „upplýsingar um Covid-19“ á vefsíðu Norrænu. Áður hefur verið gripið til almennra ráðstafana í ferjunni; búið er að fjölga handþvottastöðvum, þrif aukin og farþegum sem sýna einkenni kórónuveirusmits hefur verið meinaður aðgangur.

Nú hefur hins vegar verið tekin ákvörðun um að breyta ferðafyrirkomulaginu. Norræna sigldi frá Færeyjum til Danmerkur í gær og mun sigla aftur til baka á morgun. 

Ferjan siglir síðan áfram til Íslands - farþegalaus.

„Hverjum þeim sem hóf ekki ferðalag sitt eða er ekki á heimleið verður bannað að ferðast með MS Norrænu,“ segir auk þess í tilkynningunni og bætt við að ölllum þeim sem „þurfa ekki að ferðast“ verði ekki hleypt inn í ferjuna.

Smyril Line segist jafnframt ætla að styðjast við þetta fyrirkomulag til 28. mars næstkomandi, nema annað verði sérstaklega tekið fram.

Uppfært kl. 7:10

Samkvæmt upplýsingum frá Lindu Gunnlaugsdóttur, framkvæmdastjóra Smyril Line á Íslandi, mun Norræna halda vöruflutningum sínum til Íslands áfram. Ferjan mun hins vegar ekki sigla með farþega frá Færeyjum til Seyðisfjarðar næstu tvær vikurnar. Fréttin hefur verið uppfærð með þessum upplýsingum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.