Innlent

Þúsundir skráðu sig í skimun og kerfið hrundi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Vísir/vilhelm

Þúsundir hafa nú skráð sig til þátttöku í skimunum sóttvarnalæknis og Íslenskrar erfðagreiningar fyrir kórónuveirunni hjá almenningi. Álag á bókunarkerfi Íslenskrar erfðagreiningar var svo mikið að það hrundi fyrst um sinn en vefnum hefur nú verið komið í samt lag og fleiri tímar standa til boða.

Tilkynnt var í dag að opnað hefði verið fyrir bókanir í skimun fyrir veirunni, sem er á vegum sóttvarnayfirvalda í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu og sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, á vefnum bokun.rannsokn.is. Skimanir hefjast klukkan hálf níu í fyrramálið í Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna í Turninum að Smáratorgi 3 í Kópavogi.

Útbreiðsla veirunnar hefur verið hröð hér á landi en í kvöld voru staðfest smit orðin alls 117. Hingað til hafa þeir sem eru að koma frá áhættusvæðum í Ölpunum og sýnt einkenni Covid-19 sjúkdómsins fengið forgang í skimun fyrir veirunni á Landspítala.

Tímum bætt við

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, upplýsinga- og samskiptafulltrúi Íslenskrar erfðagreiningar, segir í samtali við Vísi að gríðarlegur áhugi hafi verið fyrir skimuninni hjá almenningi. Þúsundir hafi þegar skráð sig til þátttöku nú fyrstu klukkustundirnar eftir að opnað var fyrir skráningu.

„Álagið á kerfið var svo mikið að það hrundi fyrst í stað en nú hefur tímum verið fjölgað fyrir fólk vegna mikils áhuga þannig að fleiri geta skráð sig,“ segir Þóra.

Þannig hafa einhverjir ef til vill fengið meldingu á bókunarvefnum um að allir tímar séu uppbókaðir. Þóra segir að þá sé ráð að bíða.

„Við biðjum fólk að sýna biðlund ef kerfið er stirt þar sem það hefur verið undir miklu álagi. Stundum dugar að koma inn aftur eftir smá stund.“


Tengdar fréttir

Ætluðu ekki að beina fólki utan áhættuhóps inn á 1700

Útvíkkuð skilyrði til sýnatöku fyrir kórónuveirunni eru fyrst og fremst ætluð til framkvæmdar hjá heimilislæknum á heilsugæslustöðvum landsins, að sögn Víðis Reynissonar hjá almannavörnum ríkislögreglustjóra.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.