Innlent

Bráðavandi blasir við Skaftárhreppi

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps.
Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps.

Bráðavandi blasir við Skaftárhreppi að mati sveitastjóra sem segir ekki hægt að bíða aðgerða stjórnvalda. Sveitastjórnarráðherra segir unnið að greiningu á ástandinu.

Nokkur sveitarfélög þar sem áfallið er hvað mest munu verða fyrir það miklu tekjufalli að þau munu ekki ráða við þetta. Lágmarks lögbundin þjónusta og launagreiðslur verða erfiðar þegar kemur fram á árið en við erum ekki komin þangað núna,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, sveitastjórnarráðherra.

Í úttekt Byggðastofnunar kemur fram að níu sveitarfélög verði fyrir þyngsta högginu vegna hruns ferðaþjónustunnar. Líkt og sést á þessari mynd eru áhrifin mikil á Suðurlandi og einnig á Suðurnesjum þar sem stjórnvöld hafa þó samþykkt sértækar aðgerðir sem sveitarfélögin þar munu fjalla um í næstu viku.

Útlitið er einna svartast í Skaftárhreppi þar sem gert er ráð fyrir að útsvarsstofn lækki um allt að 29 prósent og atvinnuleysi mælist um þrjátíu prósent. Sveitarstjóri segir að sveitarfélagið gæti verið að horfa upp á að erfitt verði að halda úti þjónustu að óbreyttu.

,,Vandinn er mjög bráður og við erum þegar farin að finna fyrir tekjusamdrætti,“ segir Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps.

Starfshópur vinnur nú að greiningu á ástandinu. Að sögn ráðherra á hún að liggja fyrir í fyrri hluta næsta mánaðar.

Einhver sveitarfélög kvarta undan því að þetta taki of langan tíma, að vandinn sé núna.

,,Já ég er nú bara ekki sammála því. Ég held að samtalið sé í mjög góðum farveg,“ segir Sigurður Ingi

,,Við getum ekki beðið, það er ótækt að missa það að það verði farið í einhverjar aðgerðir, að missa það inn í sumarfrí. Við þurfum að það sé brugðist við strax,“ segir Sandra.

Óvissuástandið sé algjört.

Þegar tekjurnar dragast svona saman að þá auðvitað minnkar þanþol sveitarfélagsins til lántöku. Á meðan við vitum ekki hvaða aðgerðir ríkið ætlar að ráðast í er erfitt fyrir okkur að bregðast við,“ segir Sandra.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.