Innlent

Mikill eldur í vinnu­búðum við Suður­lands­veg

Kristín Ólafsdóttir og Jóhann K. Jóhannsson skrifa
Frá vettvangi brunans í morgun.
Frá vettvangi brunans í morgun. Vísir/Jóhann K.

Heilmikill eldur kviknaði í vinnubúðum Íslenskra aðalverktaka við Suðurlandsveg í Ölfusi á fjórða tímanum í nótt. Greiðlega gekk að slökkva eldinn að sögn slökkviliðsstjóra en tjón er þó talsvert.

Útkallið barst Brunavörnum Árnessýslu klukkan 3:14 í nótt. Kalla þurfti út slökkviliðsmenn frá Hveragerði og Selfossi, auk tveggja tankbíla frá stöðvum þaðan vegna þess að ekkert vatn er á svæðinu þar sem búðirnar standa.

„Það var heilmikill eldur í þeim hluta búðanna sem munu líklega verða eldhús og mötuneyti. Okkur tókst nokkuð greiðlega að slökkva eldinn þegar við vorum komnir með vatn,“ sagði Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, í samtali við fréttastofu á vettvangi snemma í morgun.

Slökkviliðsmenn að störfum í morgunbirtunni.Vísir/Jóhann K.

Tankbílarnir voru notaðir til að ferja vatn að vettvangi brunans. „Heilmikil vinna en það gekk greiðlega þegar við komumst af stað,“ sagði Pétur.

Búðirnar samanstanda af um tíu einingum. Mikill eldur var í tveimur þeirra.

„Reykkafarar unnu aðeins í anddyri til að ná betur að eldi innan frá en að mestu leyti var þetta unnið utan frá í körfubíl.“ Þá varð talsvert tjón á búðunum.

„Já, þetta er mikið tjón án efa. En það vill þó til að þetta kviknar í enda hlémegin miðað við vindinn, það er strekkingsvindur. Hefði kviknað hinum megin hefði þessi eining líklega farið alveg. En þarna spilaði náttúran með okkur fyrst að eldurinn kom upp þarna megin og það tókst að stoppa þetta.“

Slökkviliðsmaður slekkur eldinn úr körfubíl.Vísir/Jóhann K.
Heilmikill eldur logaði í tveimur einingum.Vísir/Jóhann K.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×