Lífið

Margur einlægur Eurovision-aðdáandinn sármóðgaður vegna myndbands Ferrells

Jakob Bjarnar skrifar
Will Ferrell í nýjum Eurovisionmyndbandi sínu og Flosi Jón ásamt vinum sínum. Hann segir rétt að mörgum Eurovisionaðdáanda sé brugðið.
Will Ferrell í nýjum Eurovisionmyndbandi sínu og Flosi Jón ásamt vinum sínum. Hann segir rétt að mörgum Eurovisionaðdáanda sé brugðið.

Klippa úr væntanlegri mynd Will Ferrells, sem fjallar um Eurovision-keppnina, sem birtist nú um helgina leggst ekki vel í einlæga Eurovision-aðdáendur. Þeir óttast að þarna sé verið að draga keppnina sundur og saman í nístandi háði. Gera grín að því allra heilagasta.

Flosi Jón Ásgeirsson, formaður Félags áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (FÁSES) segir það rétt. Margir einlægir hafi lýst því yfir á ýmsum spjallþráðum þar sem umræðuefnið er Eurovisionkeppnin að þeim lítist ekki á blikuna. Og séu hreinlega móðgaðir. Fréttablaðið sópaði upp nokkrum slíkum ummælum af Twitter í gærkvöldi.

Klippan sýnir dúettinn, þau Lars Erickssong (Will Ferrell) og Sigrit Ericksdottir (Rachel McAdamas) flytja lagið Volcano man. Myndin, sem ber tilinn Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga er væntanleg á Netflix 26. júní. Myndin var meðal annars tekin á Húsavík og koma ýmsir íslenskir leikarar fram í myndinni.

Íslendingar eru mestu Eurovision-flónin

Vísir leitaði til eins þeirra, Jóhannesar Hauks Jóhannessonar, með það fyrir augum að leita svara við þeirri spurningu hvort einlægir aðdáendur Eurovision-keppninnar hafi ástæðu til að óttast? Hvort innistæða sé fyrir vægu taugaáfalli þeirra, hvort þarna sé ætlunin að draga Eurovisonáhuga Íslendinga sundur og saman í nístandi háði?

Jóhannes Haukur segist að samkvæmt handriti þá megi vænta þess að Íslendingar verði dregnir sundur og saman í nöpru háði í nýrri mynd Ferrells.

„Uppleggið er að þau keppa fyrir Íslands hönd,“ segir Jóhannes Haukur. Hann veit ekki hversu miklu hann má kjafta: „En ekki endilega á þeim forsendum að hafa verið bestu keppendurnir.

Það er smá tvist með það. En heilt yfir þá er auðvitað verið að gera grín að okkur. En líka öllum hinum. Eurovision sem heild.“

En, við erum mestu Eurovisionflónin?

„Já. Klárlega. Litla þjóðin sem vinnur aldrei.“

Þannig að einlægir Júróvisíónaðdáendur eiga ekki von á góðu?

„Mögulega ekki. Maður veit það samt ekki. Hef náttúrlega ekki séð myndina. En handritið er allavega þannig að það gæti orðið.“

Vísir ræddi jafnframt við formann Fáses, Flosa Jón, um þessa vá sem stendur fyrir dyrum einlægra Euriovison-aðdáenda. Hann segist bara búinn að sjá umrædda klippu og veit ekki alveg við hverju fólk var að búast þegar Will Ferrell er annars vegar.

Flosi Jón er mikill og einlægur aðdáandi Eurovision og stendur fyrir sérstöku Eurovision-zumba á netinu. Sjálfur tekur hann lagi Ferrells létt en segist vel skilja þá sem hreinlega lifi fyrir keppnina, að þeim sárni.

„Hvort fólk var að búast við einhverri ástríðu og að Eurovision væri miðpunktur alheimsins? Ég hef alltaf sagt að öll umfjöllun sé auglýsing og góð fyrir keppnina. Þetta á eftir að fá fleira fólk til að sýna þessu áhuga. Bandaríkjamenn hafa sýnt því áhuga á að halda svona keppni. Ég held að þetta eigi bara eftir að auka áhuga; hvaða brjálæði er þetta?“ segir Flosi Jón sem sjálfur lætur sér hvergi bregða.

Mörgum brugðið

En vissulega sé mörgum brugðið.

„Jújú, maður sér alveg að það er verið að gera grín en stundum eru bara svona atriði í Eurovision og við höfum alveg eins gaman að því og lögum sem festast í þjóðarsálinni og eru góð.“

Flosi Jón nefnir sem dæmi framlag Azerbaijan nú í ár sem kannski svipi að einhverju leyti til lags Ferrels, það er myndbandinu. Þarna séu ýmsir stílar saman komnir.

 En ég skil svo sem alveg þá sem eru móðgaðir, því þetta er mikið hitamál fyrir mörgum, lífsstíll fyrir mörgum að fylgja Eurovision. Að sjálfsögðu verða þá menn móðgaðir þegar verið er að gera grín að ástríðu þeirra. En ég held að meirihlutinn sjái þetta sem frábært tækifæri, að Euriovision verði þá meira í umræðunni.“

Flosi Jón bendir jafnframt á að ekki hafi verið að sjá lítilsvirðandi framgöngu þegar Will Ferrell mætti til að veita 12 stig fyrir hönd Íslands í sérstökum þætti Ríkissjónvarpsins sem meðal annars gekk út á að finna hvaða lag Ísland hefði valið ef keppnin hefði ekki verið felld niður vegna Covid-19.

Flosi Jón. Að sjálfsögðu verða menn móðgaðir þegar verið er að gera grín að ástríðu þeirra.

„Hann virtist nú ekki gera lítið úr okkur Íslendingum þegar hann gaf 12 stiginn og fannst bara heiður að vera með. Og ef einhver hefur haldið að ekki sé hægt að gera grín að Eurovision hefur hann ekki verið að horfa á sömu keppnina og ég sem fór að fylgjast með 1990. Þegar Stjórnin kom og gerði okkur öll brjáluð með velgengni sinni.“

Margir sem lifa fyrir Eurovision

Flosi Jón bætir því við að Eurovisonaðdáendur elski alla athygli. „Ég veit ekki betur en maður sé fyrstur til að fylgja eftir kamerunum þegar maður er í salnum. Sálfræðingar hafa gaman að sjá ástríðuna hvað við erum tilbúin að ganga langt.“

Með öðrum orðum, formaður Fáses er á báðum áttum, hvað honum eigi að finnast um þetta framtak Ferrells, hvort þetta megi heita niðrandi eða ekki. Og ítrekar að hann skilji þá aðdáendur sem eru móðgaðir.

„Menn lifa fyrir þetta. Sárt að sjá þegar verið er að leggja barnið sitt í einelti,“ segir Flosi Jón en tekur jafnframt fram að þetta sé kannski fullsterkt líkingarmál. „Og maður verður stundum móðgaður þegar einhver er að setja út á landið okkar Ísland sama í hvaða formi það er.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.