Innlent

Mótmæltu gæsluvarðhaldskröfu með vísan í faraldurinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Margeir Pétur Jóhannsson var eini sakborningurinn sem var viðstaddur dómsuppkvaðningu í máli þremenninganna í desember.
Margeir Pétur Jóhannsson var eini sakborningurinn sem var viðstaddur dómsuppkvaðningu í máli þremenninganna í desember. Vísir/Vilhelm

Þrír karlmenn sem hlutu þunga fangelsisdóma fyrir amfetamínframleiðslu í Borgarfirði vísuðu til kórónuveirufaraldursins þegar þeir mótmælu kröfu saksóknara um að þær sæti gæsluvarðhaldi á meðan þeir bíða þess að áfrýjun þeirra verði tekin fyrir. Landsréttur staðfesti gæsluvarðhald yfir þeim öllum.

Alvar Óskarsson var dæmdur í sjö ára fangelsi og Einar Jökull Einarsson og Margeir Pétur Jóhannsson voru dæmdir í sex ára fangelsi fyrir framleiðslu á átta kílóum af amfetamíni í sumarbústaði í Borgarfirði í desember. Þeir hafa allir áfrýjað til Landsréttar og bíða þess að málið verði tekið til meðferðar þar.

Sjá einnig: Þungir dómar vegna amfetamínframleiðslu í Borgarfirði

Ákæruvaldið krafðist þess að þeir sættu gæsluvarðhaldi á meðan. Því mótmæltu þremenningarnir, meðal annars með vísan til sérstakra aðstæðna í þjóðfélaginu vegna kórónuveirufaraldursins sem nú geisar.

Landsréttur hafnaði þeim rökum og taldi ekki séð að áhrif þess ástands og smitvarnarráðstafanir á borð við takmarkanir á heimsóknum til sakborninganna væru þeim þungbærari en vænta mætti að aðrir í samfélaginu þyrftu að þola við þessar aðstæður. Þá hafi ekkert komið fram um að ekki sé hægt að tryggja öryggi mannanna eða að heilsu þeirra sé stefnt í hættu með gæsluvarðhaldinu.

Staðfesti Landsréttur því gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir mönnum. Þeir þurfa því að sæta varðhaldi á meðan málið er til meðferðar en þó ekki lengur en til 7. september.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.