Innlent

Norræna siglir með farþega á ný

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Norræna í höfn á Seyðisfirði.
Norræna í höfn á Seyðisfirði. Vísir/JóiK

Farþegar eru væntanlegir til Seyðisfjarðar með Norrænu á þriðjudagsmorgun í fyrsta sinn í mánuð. Framkvæmdastjóri Smyril-Line, sem rekur ferjuna, segir von á 23 farþegum. Sóttvarnalæknir segir hluta farþega hóp á leið til vinnu.

Austurfrétt greinir frá þessu og segir ferjuna sem stendur í heimahöfn í Þórshöfn. Þaðan sigli hún til Danmerkur í kvöld, komi aftur til Færeyja á laugardag og komi til hafnar á Seyðisfirði þriðjudegi.

Norræna hefur undanfarin mánuð aðeins sinnt fraktflutningum vegna kórónuveirufaraldursins. Danmörk hefur auk þess lokað landamærum sínum.

Linda B. Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril-Line á Íslandi, segir alla farþegana vera á eigin vegum því engar hópferðir séu í gangi eins og er.

„Við höfum verið í nánu sambandi við Sóttvarnarlækni Íslands og Almannanefndar Austurlands um farþegaflutningana,“ segir Linda í samtali við Austurfrétt.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á daglegum upplýsingafundi almannavarna í dag að starfshópur væri að skoða reglur varðandi komur ferðamanna hingað til landsins. Von væri á niðurstöðum hópsins öðru hvoru megin við helgina og í framhaldinu myndi sóttvarnalæknir útbúa minnisblað fyrir ráðherra.

Fólk sem kemur hingað til landsins til að dvelja þarf að fara í tveggja vikna sóttkví. Engar reglur gilda um ferðamenn sem stendur. Þórólfur segir í skoðun að breyta reglunum og útfæra betur svo þær nái líka til ferðamanna.

„Við fylgjumst mjög vel með Norrænu sem er að koma í næstu viku. Hvaða farþegar það eru, það er ekki alveg ljóst hve margir þeir eru. Það er hópur sem er að fara að vinna hér og þá gildir ákveðin sóttkví um þá. Það er ekki alveg ljóst en þetta er mjög brýnt mál.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.