Innlent

Lýsti yfir neyðarástandi í Skálholti

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skálholtsdómkirkja var vígð árið 1963.
Skálholtsdómkirkja var vígð árið 1963. Þjóðkirkjan

Vígslubiskup í Skálholti lýsti yfir neyðarástandi í Skálholti í erindi sem lagt var fyrir kirkjuráðsfund fyrir rúmum tveimur vikum. Ástæðan fyrir yfirlýsingu biskups er mikill vatnsleki í turni kirkjunnar. Viðgerðum verður hrint af stað sem ráðgert er að kosti tæpar 100 milljónir króna.

Þjóðkirkjan greinir frá þessu á vef sínum nú í vikunni. Þar er haft eftir séra Kristjáni Björnssyni, vígslubiskup í Skálholti, að mikill vatnsleki hefði orðið fyrir nokkru í turni Skálholtskirkju. Inni í turninum liggi þakrennur sem gáfu sig á klukkuloftinu og þar safnaðist vatn sem lak inn á næstu hæðir.

„Í turninum er hið merka bókasafn Þorsteins Þorsteinssonar, sýslumanns, sem keypt var til Skálholtsstaðar á sínum tíma. Mildi má teljast að ekki urðu vatnsskemmdir á því en vígslubiskupinn komst að þessum leka í tæka tíð svo ekki varð tjón á safninu. Starfsfólk Skálholts hóf þegar aðgerðir og vígslubiskupinn lagaði rennuna til bráðabirgða,“ segir í umfjöllun Þjóðkirkjunnar.

Þá er haft eftir séra Kristjáni að tafarlaust verði hafist handa við að flytja bókasafnið í Gestastofuna svokölluðu, sem hafi lengi verið til umtals. Sjálfboðaliðum munu handlanga bækurnar frá turni og yfir í stofuna.

Séra Kristján leggur jafnframt áherslu á að viðgerðir á kirkjunni, sem hafi verið mjög illa farin, megi ekki bíða. Framkvæmdirnar séu dýrar og kosti tæpar 100 milljónir króna. Stefnt er að því að ljúka öllum endurbótum á kirkjunni ekki síðar en á 60 ára afmæli hennar 2023.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×