Fótbolti

Marka­skorarinn og læknis­fræði­neminn úti­lokar ekki at­vinnu­mennsku

Anton Ingi Leifsson skrifar
Elín Metta hefur leikið vel með Valsliðinu undanfarin ár.
Elín Metta hefur leikið vel með Valsliðinu undanfarin ár. vísir/daníel

Ein besta fótboltakona landsins, Elín Metta Jensen, raðar ekki bara inn mörkum á fótboltavellinum heldur stundar hún einnig læknisfræði með fótboltanum. Hún segir að það krefjist aga að sameina þetta tvennt.

Elín Metta fór á kostum á síðustu leiktíð. Hún skoraði sextán mörk í Íslandsmeistaraliði Vals en með fram fótboltanum er það skólinn sem hún eyðir mestum tíma sínum í.

„Maður þarf að vera agaður og svo má maður ekki endalaust vera með svipuna á sér. Maður þarf líka að gefa sjálfri sér „space“. Kannski er fínt að nýta tímann í það núna að leyfa sér að taka því rólega,“ sagði Elín.

„Skólinn heldur áfram og æfingar eru á fullu. Ég lít það jákvæðum augum að geta æft áfram en maður æfir bara sjálf. Á meðan mér finnst þetta skemmtilegt held ég áfram og ég er með það mikið keppnisskap að það hverfur ekkert meðan ég er í fótbolta. Það er bara halda áfram að gera vel með Val. Við erum með frábært lið og maður er bjartsýnn á framhaldið með Völsurum.“

Klippa: Áskorun fyrir mig að stunda fótboltann með læknanáminu segir landsliðskonan Elín Metta

Elín Metta fór til Bandaríkjanna árið 2015 og hugðist stunda þar nám en þau plön héldu ekki lengi.

„Það var skrýtið að hætta við það því það var eitthvað sem ég hafði stefnt að lengi. Svo komst ég að því að þetta hentaði mér ekkert sérstaklega vel og ég tók þessa ákvörðun að reyna komast inn í læknisfræði. Ég sé ekki eftir því í dag. Í rauninni var það bara gott skref.“

Þrátt fyrir námið útilokar þessi magnaði framherji ekki að fara í atvinnumennsku síðar meir.

„Ég útiloka það ekki og mér finnst það spennandi. Ég ætla að taka eitt ár í einu og sjá hvernig gengur að sameina þetta áfram,“ sagði Elín Metta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×