Bíó og sjónvarp

Modern Family kveður fyrir fullt og allt í kvöld á Stöð 2

Heiðar Sumarliðason skrifar
Nú og þá.
Nú og þá.

Sjónvarpsþáttaröðin Modern Family hóf göngu sína á ABC í Bandaríkjunum 23. september árið 2009 og nú, 250 þáttum og ellefu þáttaröðum síðar, er komið að endalokunum. Stöð 2 mun í kvöld sýna lokaþátt seríunnar.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þessum ellefu árum, bæði hjá bandarísku þjóðinni og í lífi persónanna. Árið 2009 var Barack Obama nýlega orðinn fyrsti hörundsdökki forseti sögu Bandaríkjanna. Í augum þeirra sem kusu hann voru bjartir tímar fram undan hvað varðaði mannréttindi og víðsýni. Margt jákvætt gerðist á meðan þættirnir voru í loftinu og hafa ýmsir sagt þá mótandi hvað varðar ýmis mannréttindamál í Bandaríkjunum.

Þó voru þættirnir gagnrýndir fyrir ýmislegt, því mörgum þótti þeir ýta undir steríótýpur varðandi samkynhneigða og suður-ameríska innflytjendur, sem og hanga í úreltum birtingarmyndum kynjanna. Það má vel vera að eitthvað sé til í því, en hið jákvæða sem Modern Family hafði í för með sér vegur töluvert þyngra en það neikvæða, því þegar öllu er á botninn hvolft var tilgangur þáttanna fyrst og fremst að fá fólk til að hlæja og skemmta sér. Það tókst svo sannarlega og heiðrum við Modern Family hér með nokkrum molum og frábærum senum.

Obama-fjölskyldan ásamt Neil Patrick Harris og Rico Rodriguez, sem lék Manny Delgado í Modern Family.

Vissir þú að...

Leikkonan Ariel Winter, sem leikur Alex Dunphy, neyddist til að sækja um einskonar lögskilnað frá móður sinni árið 2016. Móðir hennar hafði lengi verið til vandræða á tökustað og hafði Ariel verið tekin úr umsjá hennar af barnaverndaryfirvöldum árið 2012, vegna andlegs og líkamlegs ofbeldis.

Modern Family var fyrsta þáttaröðin í sögu bandarísks sjónvarps sem sýndi brúðkaup tveggja karlmanna. Leikararnir segja samkynhneigt fólk oft koma upp að þeim og segja að persónur Mitch og Cam hafi hjálpað því sjálfu að koma út úr skápnum.

Frá brúðkaupi Mitch og Cam.

Barack Obama sagði Modern Family vera sinn uppáhalds sjónvarpsþátt. Mótframbjóðandi hans árið 2008, Mitt Romney, sagðist einnig mjög hrifinn af þáttunum.

Hjónaband samkynhneigðra var lögleitt í Bandaríkjunum árið 2015 í forsetatíð Obama. Því er haldið fram að þættirnir hafi lagt lóð sitt á vogarskálarnar með framsetningu sinni á samkynhneigð.

Langmest var horft á Modern Family við strendur Bandaríkjanna, á meðan töluvert minni áhugi var fyrir þáttunum í mið- og suðurríkjunum.

Hér gefur að líta kort sem sýnir hvar mest var horft á Modern Family.

Sarah Hyland sem leikur Hailey er langelst af krökkunum, fædd árið 1990. Leikararnir sem leika Manny, Luke og Alex eru öll fædd árið 1998, þó svo að persóna Alex eigi að vera eldri en strákarnir.

Tiltrú ABC á þáttunum var svo mikil að pöntuð var sería númer tvö áður en fyrsti þáttur var frumsýndur. 

Upprunalega voru persónurnar Claire og Gloria báðar heimavinnandi. Ákveðnir hópar gagnrýndu þáttinn fyrir þessa framsetningu og þótti kaldhæðnislegt að aðal kvenpersónur þáttar sem héti Modern Family væru ekki meira módern en svo. 

Höfundarnir tóku þó við sér og báðar enduðu þær á vinnumarkaði.

Írönsk sjónvarpsstöð framleiddi svo gott sem nákvæma eftirlíkingu af Modern Family fyrir innanlandsmarkað. Þetta væri svo sem ekki merkilegt eitt og sér, enda endurgerðir daglegt brauð, ef ekki væri fyrir þá staðreynd að Íranirnir spurðu hvorki kóng, né prest, né klerk og stálu þáttunum. Hér er hægt að sjá hvernig þeir endurgerðu heilu senurnar. 

Modern Family var einn fyrsti gamanþátturinn til að nota samskipti í gegnum farsíma og myndsímtöl að staðaldri.

Upprunalega hugmyndin var sú að sjónarhorn þáttanna væri úr myndavél sænsks heimildarmyndagerðarmanns, sem hafði verið skiptinemi á heimili Dunphy-hjónanna. Þessi útfærsla gaf persónunum tækifæri á að tala beint inn í myndavélina og tjá sig um framvinduna. Þetta var mjög vinsælt stílbragð á fyrsta áratugi þessarar aldar og var beitt í þáttum á borð við The Office og Parks and Recreation.

Í tilefni af lokaþættinum birtist spjallþáttastjórnandinn Jimmy Kimmel í hlutverki mannsins sem átti að hafa verið bakvið myndavélina allan þennan tíma.

Bestu augnablikin

Modern Family átti fjöldamörg ódauðleg augnablik. Hér eru nokkur góð. 

Mamma þín vinnur í kolanámu 

Manny og Luke lenda í slagsmálum í skólanum, en eftir að hafa sæst lætur Luke svolítið mjög vandræðalegt út úr sér.

Cameron grípur kjuðana og sviðsljósið

Trommuleikari hljómsveitar Dylans hættir skyndilega, Cameron kemur öllum á óvart og er liðtækur trommari. Hann stekkur því inn í hans stað til að bjarga væntanlegum tónleikum. 

Mitchell gegn dúfunni

Á meðan Cameron syngur (illa) í brúðkaupi berst Mitchell við dúfu sem flaug inn í húsið þeirra. 

Fizbo er harðhaus

Mitchell og Cameron stoppa til að taka bensín. Þegar Mitchell er að fara að dæla er keyrt utan í hann. 

Edward Norton sem Izzy LaFontaine

Eitt fyndnasta atriði Modern Family með þekktum gestaleikara var í fyrstu þáttaröðinni. Þá birtist Edward Norton sem Izzy LaFontaine, fyrrum bassaleikari hljómsveitarinnar Spandau Ballet.  

Jay þræðir nálina

Jay leyfir Phil að fylgjast með þegar hann flýgur fjarstýrðri flugvél. Hann fær þá hugmynd að láta Phil halda á húlahring sem hann ætlar að fljúga í gegnum.

Heiðar Sumarliðason og Bryndís Ósk Ingvarsdóttir ræddu Modern Family í síðasta þætti Stjörnbíós. Hægt er að hlýða á umræðuna í spilaranum hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×