Innlent

Bjóða upp á skammtímahúsnæði fyrir fólk á vergangi vegna faraldursins

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Reykjavíkurborg hefur þjónustað langstærsta hluta heimilislausra með fjölþættan vanda hér á landi og starfrækir þrjú neyðarskýli.
Reykjavíkurborg hefur þjónustað langstærsta hluta heimilislausra með fjölþættan vanda hér á landi og starfrækir þrjú neyðarskýli. Vísir/vilhelm

Reykjavíkurborg, með fjármögnun frá félagsmálaráðuneytinu, mun koma á fót sérstakri móttöku sem er opin allan sólarhringinn og býður upp á skammtímahúsnæði fyrir þá sem eru í húsnæðisvanda vegna COVID-19. Áætlaður heildarkostnaður vegna verkefnisins, sem er til fjögurra mánaða, er um 85 milljónir króna.

Í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu um styrkveitinguna segir að fjölgað hafi í hópi þeirra sem leita til félagsþjónustu sveitarfélaga eftir fjárhagsaðstoð og aðstoð við húsnæðisleit.

„Um er að ræða fólk sem hefur dvalist erlendis, hjá ættingjum eða vinum eða í öðru tímabundnu húsnæði og hefur lent í fjárhags- og húsnæðisvanda vegna COVID-19, til dæmis vegna hættu á smiti í núverandi húsnæði, eða fólk sem þarf að fara í sóttkví, missir samastað sinn og leitar til sveitarfélags síns eftir húsnæðisúrræðum. Stundum getur þessar aðstæður borið brátt að og þörf fyrir úrræði strax.“

Af þeim sökum hafi verið ákveðið að ráðast í uppsetningu á fyrrnefndri móttöku og neyðarhúsnæði. „Samstarfið þýðir jafnframt að borgin mun hafa svigrúm til að taka við öllum þeim sem þurfa þjónustuna á landsvísu óháð lögheimili. Móttakan mun tengja viðkomandi einstaklinga við félagsráðgjafa í því sveitarfélagi þar sem einstaklingurinn á lögheimili en viðkomandi getur dvalið í skammtímahúsnæðinu þar til mál hans eru komin í réttan farveg hjá því sveitarfélagi sem um ræðir,“ segir í fyrrnefndri tilkynningu.

Þar segir jafnframt að rætt hafi verið við fulltrúa Akureyrarbæjar um sambærilegar aðgerðir, sé þörf og tilefni til.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.