Innlent

Ró­leg­heita­veður fram að helgi

Atli Ísleifsson skrifar
Spákortið fyrir hádegið. Sólin lætur sjá sig.
Spákortið fyrir hádegið. Sólin lætur sjá sig. Veðurstofan

Veðurstofan spáir rólegheitaveðri þar sem verður úrkomulítið en svalt, fram á föstudaginn langa. Spáð er norðvestan 8 til 15 metrum á sekúndu og dálitlum éljum norðaustanlands framan af degi, en annars hægum vindum og yfirleitt léttskýjuðu.

Á föstudaginn mun svo hvessa úr austri með rigningu eða slyddu á sunnanverðu landinu og heldur hlýna.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að útlit sé fyrir skammvinna norðaustanátt og kólnandi veðri á laugardaginn, en síðan snúist í vaxandi suðvestanátt með hlýnandi veðri, en vætu sunnan- og vestanlands.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag (skírdagur): Suðlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s, skýjað með köflum og vægt frost, en 8-13 m/s, smá skúrir og hiti að 5 stigum með suðurströndinni. 

Á föstudag (föstudagurinn langi): Gengur í suðaustan 10-15 m/s með rigningu eða slyddu og hiti 1 til 5 stig sunnanlands, en annars hægir vindar, bjartviðri og hiti við frostmark.

Á laugardag: Útlit fyrir skammvinna norðaustanátt með rigningu eða slyddu öðru hvoru, en þurrviðri S- og V-lands. Kólnandi veður í bili.

Á sunnudag (páskadagur): Gengur í sunnan- og suðvestanátt og hlýnar í veðri, en skýjað eystra og svalt í veðri.

Á mánudag (annar í páskum) og þriðjudag: Útlit fyrir allhvassa suðvestanátt með vætu og hlýindum, en þurrviðri NA til.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×