Innlent

Þrjú göt fundust á nótar­poka sjó­kvíar í Arnar­firði

Atli Ísleifsson skrifar
Götin uppgötvuðust síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Götin uppgötvuðust síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Þrjú göt hafa fundist á nótarpoka einnar sjókvíar Arnarlax við Hringsdal í Arnarfirði. Matvælastofnun barst tilkynning frá fyrirtækinu um málið síðastliðinn fimmtudag.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að götin hafi uppgötvast síðdegis 2. apríl þegar verið var að sækja fisk til slátrunar. Var þá nótarpoki hífður upp og tóku starfsmenn eftir götunum og gerðu við þau.

„Samkvæmt upplýsingum Arnarlax voru rifurnar á 1,5 m dýpi og var lengd þeirra 20 cm, 50 cm og 100 cm lóðrétt niður nótarpokann. Í kvínni voru um 88.500 laxar með meðalþyngd 7,9 kg. Neðansjávareftirlit var áður framkvæmt 19. mars sl. og var nótarpoki þá heill.

Matvælastofnun hefur kallað eftir gögnum og upplýsingum er varða viðbrögð fyrirtækisins og er atvikið til meðferðar hjá stofnuninni. Arnarlax lagði út net í samráði við Fiskistofu til að kanna hvort strok hafi átt sér stað. Netanna var vitjað um helgina, enginn lax veiddist og liggja net enn úti. Veiðum verður hætt í dag,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×