Innlent

Graf­alvar­leg staða er á hjúkrunar­heimili í Bolungar­vík

Eiður Þór Árnason og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Bolungarvík undir Traðarhyrnu.
Bolungarvík undir Traðarhyrnu. Vísir/Samúel Karl

Fimm manna samkomubann gildir nú á öllum norðanverðum Vestfjörðum eftir að aðgerðir voru hertar. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða segir stöðuna alvarlega á Hjúkrunarheimilinu Bergi þar sem nokkur smit hafa greinst hjá íbúum og starfsfólki.

36 einstaklingar hafa reynst smitaðir af Covid-19 á Vestfjörðum þar af fimm síðasta sólarhring. Alls eru 345 í sóttkví og af þeim 236 í Bolungarvík eða einn fjórði íbúa. 

Á Hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík hafa þrír íbúar greinst með veiruna og grunur er um að einn í viðbót sé smitaður. Aðrir íbúar eru í sóttkví.

„Ástandið á Hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík er alvarlegt. Þar eru íbúar veikir, starfsmenn veikir og í sóttkví, það er svona það sem er alvarlegast í stöðunni,” segir Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Þá hafa að minnsta kosti þrír starfsmenn greinst með veiruna og aðrir eru í sóttkví. Erfitt hefur verið að manna vaktir en Gylfi segir að það horfi nú til betri vegar.

„Núna sýnist okkur að við séum búin að fylla þyrlu Landhelgisgæslunnar sem færi þá í fyrramálið ef veður og aðrar aðstæður leyfa. Það væru þá sirka sex sem kæmu með þeirri sendingu og svo eru fleiri búnir að skrá sig, þannig að okkur sýnist við vera komin fyrir vind í því en áfram eru línurnar opnar og við óskum eftir öllum vinnufúsum höndum, sérstaklega meðal sjúkraliða og hjúkrunarfræðinga.“

Í ljósi ástandsins var ákveðið um fjögur leitið í dag að herða aðgerðir á fleiri stöðum á Vestfjörðum en í Bolungarvík, á Ísafirði og Hnífsdal. Nú á samkomubann fimm eða færri einnig við um Suðureyri, Flateyri, Þingeyri og Súðavík. 

Miðað er við að 30 viðskiptavinir séu að hámarki inni í stærri verslunum á hverjum tíma. Þá eru leikskólar lokaðir frá og með morgundeginum. Þó fá börn á forgangslistum vistun á leikskólum. Grunnskólinn er farinn í páskafrí.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×