Innlent

Tilkynningum um kynferðisbrot fækkar

Randver Kári Randversson skrifar
Tilkynningum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um kynferðisbrot hefur fækkað um 41% samanborið við sama tímabil síðustu þriggja ára.
Tilkynningum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um kynferðisbrot hefur fækkað um 41% samanborið við sama tímabil síðustu þriggja ára. Vísir/Róbert
8 kynferðisbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í júlí, sem er fækkun á milli mánaða. Tilkynningum um slík brot hefur fækkað um 41% samanborið við sama tímabil síðustu þriggja ára. Þá hefur fíkniefnabrotum fjölgað um 44% samanborið við sama tímabil síðustu þriggja ára, en 122 fíkniefnabrot voru í júlí. Þetta kemur fram í skýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu þar sem eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu.

Í skýrslunni kemur einnig fram að 593 hegningarlagabrot hafi verið skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í júlí og hefur þeim fækkað um 13% samanborið við sama tímabil síðustu þriggja ára.

294 tilkynningar um þjófnaði voru skráðar í júlí, sem er fækkun um 17% samanborið við sama tímabil síðustu þriggja ára.

Alls bárust Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 78 tilkynningar um innbrot í júlí. Tilkynnt innbrot eru þó um 23% færri það sem af er ári miðað við sama tímabil síðustu þriggja ára.

1309 umferðarlagabrot voru skráð í júlí, en það er fækkun á milli mánaða. Brotunum fjölgaði um 15% samanborið við sama tímabil síðustu þriggja ára.

Þá voru 63 ofbeldisbrot skráð í júlí, sem er fjölgun um 11% miðað við sama tímabil síðustu þriggja ára.

Tilvikum þar sem lögreglumenn hafa verið beittir ofbeldi fjölgaði nokkuð í júlí. Alls voru skráð átta slík tilvik í mánuðinum sem er nokkur aukning miðað við meðaltal síðustu 12 mánaða.

Tilkynningar um eignaspjöll voru 108, og fækkaði þeim um 10% samanborið við sama tímabil síðustu þriggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×