Innlent

Mælir gegn því að fólk bursti tennurnar strax eftir neyslu orku­drykkja

Eiður Þór Árnason skrifar
Bryndís Bjarnadóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands, hvetur fólk til vatnsdrykkju.
Bryndís Bjarnadóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands, hvetur fólk til vatnsdrykkju. Aðsend - Getty/Jack Taylor

Formaður Tannlæknafélags Íslands mælir eindregið gegn því að fólk bursti tennur sínar beint eftir neyslu orkudrykkja. Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir segir að fagfólki í tannlækningum svíði mjög hve villandi markaðssetning orkudrykkja er en neysla slíkra drykkja hefur aukist mikið hér á landi á síðustu árum.

Hún segir að sykurlausir orkudrykkir séu alveg jafn glerungseyðandi og þeir sykruðu.

Orkudrykkir eru glerungseyðandi og mjög skaðlegir fyrir tennur. Hvort drykkurinn er glerungseyðandi hefur ekkert með sykurinnihald að gera heldur sýrustig.“

Þetta kemur fram í grein hennar sem birtist á Vísi fyrr í dag í tilefni af árlegri tannverndarviku.

Neyslumynstur hafi mikið að segja

Jóhanna bendir á að rannsóknir sýni að neyslumynstur drykkjanna hafi mikið að segja um það hversu mikil glerungseyðing verður á tönnum þeirra sem neyta þeirra.

„Ef drykkjanna er neytt yfir langt tímabil og sífellt verið að taka sopa og sopa viðhelst súra ástandið í munninum og glerungseyðingin verður meiri fyrir vikið. Best er að sleppa því að drekka súra drykki en ef þeir eru drukknir er best að gera það hratt og með mat.“

Hún segir að einnig sé hægt að notast við sogrör til þess að beina sýrunni frekar fram hjá tönnunum.

Tannlæknar gagnrýna markaðssetningu drykkjanna

Jóhanna gagnrýnir að umræddir drykkir séu yfirleitt markaðssettir sem heilsuvara og fyrir fólk sem sé umhugað um heilsuna. Auglýsingar séu tíðar og afreksíþróttafólk gjarnan fengið til að auglýsa þá. Tannlæknar hafi miklar áhyggjur af þessari þróun.

„Nú til dags fer ungt fólk vart í líkamsrækt án þess að drekka súran drykk. Slík markaðssetning er auðvitað mjög villandi og hreint út sagt kolröng. Þessir drykkir hafa skaðleg áhrif á líkamann og alls ekki ætlaðir fyrir börn og unglinga.“

Hún segir því mikilvægt að foreldrar átti sig á skaðsemi orkudrykkja og leiðbeini börnum sínum í þeim efnum.

Mælt gegn því að bursta tennur strax eftir neyslu

Jóhanna bendir fólki á að það eigi alls ekki að bursta tennur sínar beint eftir neyslu orkudrykkja. Þá sé glerungur tannanna sérstaklega viðkvæmur og tannburstun getur stuðlað að aukinni glerungseyðingu.

„Eftir neyslu á súrum drykkjum er gott að skola munn með vatni og borða kalkríka fæðu eins og ost eða drekka mjólk til að sýrustigið í munninum nái fyrr að komast í eðlilegt horf.“

Að lokum minnir Jóhanna á að „besti, ódýrasti og umhverfisvænasti svaladrykkurinn er auðvitað íslenska vatnið.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×