Innlent

Sveik peninga út úr Íslandsbanka í háloftunum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
TF-GPA vél WOW air sem lengi vel var í farbanni á Keflavíkurflugvelli eftir gjaldþrot flugfélagsins.
TF-GPA vél WOW air sem lengi vel var í farbanni á Keflavíkurflugvelli eftir gjaldþrot flugfélagsins. Vísir/Vilhelm

Kona á fertugsaldri sveik rúmlega 400 þúsund krónur út úr Íslandsbanka á meðan hún var á ferðalagi með Easy Jet og WOW air. Hún játaði brot sín í Héraðsdómi Reykjaness og var dæmt í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Konan flaug með Easty Jet þann 5. og 15. desember 2018 og WOW air 14. desember. Í flugferðunum þremur nýtti hún í heimildarleysi fyrirframgreitt kreditkort frá Íslandsbanka, í nafni hennar sjálfrar, til kaupa á vörum fyrir samtals 405 þúsund krónur.

Konan komst upp með athæfið þar sem posi leitar almennt ekki að heimild á flugi vegna sambandsleysis.

„Með þessari háttsemi vakti og hagnýtti ákærða sér þá röngu hugmynd starfsmanna viðkomandi flugfélaga að greiðsla hverju sinni væri lögmæt, með tilheyrandi fjártjóni fyrir Íslandsbanka,“ segir í ákærunni.

Athygli vekur að konan keypti átta sinnum vörur í flugi Easy Jet þann 15. desember. Úttektirnar voru flestar á bilinu 20-30 þúsund krónur í hvert skipti.

Konan játaði brot sitt en hún á að baki dóma fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni en sömuleiðis almennum hegningarlögum og umferðarlögum.

Þótti þriggja mánaða skilorðsbundin fangelsisdómur hæfileg refsing.

Íslandsbanki virðist ekki hafa gert kröfu um endurgeiðslu á upphæðinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×