Lífið

Ég er soddan villimaður, hefði átt að vera uppi fyrir hundrað árum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Kristinn Pétursson sjómaður segist vera Norðfirðingur en hann ætli þó að drepast á Djúpavogi.
Kristinn Pétursson sjómaður segist vera Norðfirðingur en hann ætli þó að drepast á Djúpavogi. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson

Tveir trillukarlar, sem sáust koma siglandi innan úr Berufirði, eru teknir í spjall á bryggjunni á Djúpavogi í þættinum Um land allt á Stöð 2. Við grípum fyrst þann á rauða bátnum, Goðanesi SU, Kristin Pétursson.

„Hér er alveg rosalega gott að vera. Þetta á vel við mig. Að vera með trilluna hérna. Ég á nokkrar rollur, hænur og svona. Ég hefði sjálfsagt átt að vera uppi fyrir hundrað árum. Ég er soddan villimaður,“ segir Kristinn.

Kristinn rær á Goðanesi SU-105.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson

Við tökum eftir því að það er enginn fiskur um borð. Kristinn segist hafa verið að skjóta svartfugl í matinn. Aflinn tveir fuglar; langvía og álka.

„Þetta er ægilega góður matur. Þetta er það besta sem ég fæ. Ef hann er nógu feitur,“ segir Kristinn.

Báturinn Vöggur er með það flotta skipaskrárnúmer SU-1.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Hinn báturinn er Vöggur SU-1 en Skúli Benediktsson er að binda hann við bryggju. Hann segist þó ekki vera sjómaður.

„Ég ræ ekki, ég er svo sjóveikur,“ segir Skúli. Hann hafi eignast hlut í bátnum fyrir tilviljun en segist þó hafa gaman af því að fara á sjó þegar veður sé gott.

Skúli Benediktsson segist ekki vera sjómaður en hann sinnir allskyns viðgerðum.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

„Ég hef aðallega séð um að halda bátnum gangandi,“ segir hann kankvís. 

Sjá einnig hér: Aflakóngur strandveiðanna

Þátturinn verður endursýndur á Stöð 2 næstkomandi laugardag kl. 16.10.

Hér má sjá bryggjuspjallið við trillukarlana:


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.