Innlent

Flugfreyjufélagið sættir sig ekki við launaskerðingu til langs tíma

Vésteinn Örn Pétursson skrifar

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, starfandi formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir félagsmönnum sínum brugðið yfir bréfi Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, þar sem hann segir starfsfólk félagsins helstu fyrirstöðu þess að hægt sé að bjarga félaginu frá falli.

„Fólki er brugðið, sumir jafnvel reiðir, yfir því að það er verið að koma því yfir á starfsmenn að það séum við sem stöndum í vegi fyrir að Icelandair nái sér á strik,“ sagði Guðlaug í samtali við fréttastofu í dag.

Hún segir að ekki verði fallist á núverandi kröfur Icelandair í samningaviðræðum sínum við FFÍ.

„Það er verið að fara fram á langtíma launaskerðingu, með auknu vinnuframlagi, og skerðingu á réttindum til langtíma,“ segir Guðlaug. Icelandair fari þó ekki fram á lækkun núverandi launa félagsmanna FFÍ.

Hún segir kröfur FFÍ og tilboð sem Icelandair hafa lagt fram ekki ná saman. Aðspurð hvernig fundur samningsaðila í dag hefði gengið sagði hún hann hafa verið ágætan. Nú verði staðan tekin á félagsmönnum.

„Við erum nú að fara í baklandið og kynna fyrir félagsmönnum það sem liggur á borðinu, þannig að fólk geti metið það sjálft.“

Klárt að ekki verði farið í langtímaskerðingu

Guðlaug segir það liggja fyrir að FFÍ sé ekki tilbúið að samþykkja það sem Icelandair hefur lagt fram til þessa.

„Það er bara klárt að við ætlum ekki til langtíma að skerða laun og réttindi flugfreyja og flugþjóna á Íslandi vegna þess sem er í gangi í heiminum í dag,“ segir Guðlaug.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×