Viðskipti innlent

Segir starfsfólkið helstu fyrirstöðu þess að Icelandair verði bjargað

Kjartan Kjartansson skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Vísir/Vilhelm

Starfsfólk Icelandair er helsta fyrirstaða þess að hægt sé að bjarga Icelandair frá falli, að sögn Boga Nils Bogasonar, forstjóra flugfélagsins, í bréfi til starfsmanna. Hann segir að ljúka verði langtímasamningum við flugstéttir félagsins fyrir föstudaginn 22. maí.

Ríkisútvarpið greinir frá bréfi sem Bogi Nils birti á innri vef Icelandair í kvöld. Í því segir hann að Icelandair verði að komast í gegnum núverandi stöðu og ljúka fjármögnun sinni því að öðrum kosti sé framtíð þess ekki í lengur í höndum stjórnenda þess.

Unnið sé að því nótt og dag að bjarga Icelandair en á sama tíma upplifi Bogi Nils að „helsta fyrirstaðan fyrir að það takist erum við sjálf, starfsfólkið sem starfar hjá fyrirtækinu“, að því er RÚV hefur upp úr bréfinu.

Fullyrðir hann að semja verði við flugstéttir til nokkurra ára til að einingarkostnaður vegna launa verði ekki hærri en hjá alþjóðlegum flugfélögum sem Icelandair beri sig saman við. Lækka verði kostnaðarliði fyrirtækisins og þar muni mestu um launakostnað.

„Hvort sem okkur líkar betur eða verr gera fjárfestar kröfur um nýja langtímasamninga við flugstéttir sem gera félagið samkeppnishæft á næstu árum,“ segir í bréfinu.

Viðræður við stéttarfélög starfsfólks gangi misjafnlega. Bogi Nils segir þannig að viðræður við Félag íslenskra atvinnuflugmanna og Flugfreyjufélag Íslands mættu vera á betri stað. Leggur hann áherslu á að samningur verði að nást fyrir hluthafafund sem fer fram 22. maí.

Icelandair hefur líkt og önnur flugfélög lent í verulegum skakkaföllum vegna kórónuveiruheimsfaraldursins og aðgerða ríkja heims gegn honum. Félagið hefur sagt upp á þriðja þúsund manns að undanförnu.


Tengdar fréttir

1700 farþegar flugu með Icelandair í apríl

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu þar sem segir að þessi fjöldi farþega endurspegli þá stöðu sem nú ríkir í alþjóðaflugi vegna kórónuveirufaraldursins og þeirra ferðatakmarkana sem eru í gildi núna um allan heim.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×