Innlent

Meðalbiðtími eftir skurðaðgerð nærri sex mánuðir

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Um fjögur þúsund manns eru á biðlista hjá Landspítala eftir ýmsum aðgerðum og meðalbiðtíminn er 5,6 mánuðir. Um þúsund manns bíða eftir skurðaðgerð á augasteini og aðrir þúsund eftir bæklunarskurðaðgerð.

Mikil röskun hefur verið á starfi Landspítalans vegna kórónuveirufaraldursins. Svokölluðum valaðgerðum á Landspítala var slegið á frest.

Flestir sem eru að bíða eftir aðgerð hafa beðið í fjóra mánuði. Markmið spítalans er að biðtími sé undir þremur mánuðum óháð fjölda á biðlista.

Biðlistar í Krabbameinsaðgerðir og hjartaaðgerðir hafa ekki lengst en krabbameinsaðgerðir eru í forgangi.

Tólf hundruð manns eru á biðlista eftir augnlækningum, þar af eru 940 að bíða eftir skurðaðgerð á augasteini. Meðalbiðtíminn eru tæpir fjórir mánuðir. Ekki er bið eftir aðgerðum hjá börnum.

Tíu manns eru á bið eftir hjartaaðgerð og er biðtíminn að meðaltali tveir mánuðir. Áttatíu og fjórir eru á bið eftir öðrum brjóstholtskurðlækningum og þá margskonar aðgerðum. Biðin er mislöng eftir alvarleika.

Um þúsund manns eru að bið eftir bæklunarskurðaðgerð, flestir bíða eftir liðskiptaaðgerðum á hné og mjöðm. Biðtíminn er að meðaltali sjö mánuðir.

230 manns eru á biðlista eftir háls- nef og eyrnalækninum og er biðtíminn rúmir fjórir mánuðir.

Um 240 bíða eftir kvenskurðlækningum og er biðin um tveir og hálfur mánuður. 260 manns bíða eftir skurðaðgerð vegna lýtalækninga og hafa flestir beðið í sex mánuði.

160 bíða eftir þvagfæraskurðaðgerð og biðtíminn er jafnframt um tveir og hálfur mánuðir. Fáir bíða eftir æðaskurðlækningum.

Samkvæmt upplýsingum frá spítalanum er búist við því að biðlistar lengist. Þess má geta að eftir verkföll 2014 og 2015 voru rúmlega sex þúsund manns á biðlista.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×