Innlent

„Það er eitthvað mikið að gerast í verkalýðshreyfingunni“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, gerði hallarbyltingu innan verkalýðshreyfingarinnar að umfjöllunarefni sínu.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, gerði hallarbyltingu innan verkalýðshreyfingarinnar að umfjöllunarefni sínu. Vísir/GVA
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir að eitthvað mikið sé að gerast í verkalýðshreyfingunni þegar hann er inntur eftir viðbrögðum við tíðindum vikunnar þegar B-listi Sólveigar Önnu Jónsdóttur vann yfirburðasigur á A-lista Ingvars Vigurs Halldórssonar í stjórnarkosningum Eflingar, stéttarfélags.

Styrmir var gestur Egils Helgasonar í Silfrinu, stjórnmálaþætti Ríkisútvarpsins.

„Það er eitthvað mikið að gerast í verkalýðshreyfingunni. Mér finnst svona að með einhverjum hætti séu að verða kynslóðaskipti þarna, ungt fólk að koma til skjalanna með breytt viðhorf,” segir Styrmir sem telur að þó að breytingarnar sem eiga sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar séu ekki aðeins vegna óánægju félagsmanna með kjör.

Fámennir hópar misnoti aðstöðu sína

„Ég er þeirrar skoðunar að meginástæðan fyrir þessum óróa inni í verkalýðshreyfingunni sé það sem er að gerast inni í samfélaginu að öðru leyti, það er að segja, það eru mjög fámennir hópar í þessu þjóðfélagi sem nýta sér aðstöðu sína til þess að taka til sín meira heldur en aðrir hafa möguleika á og þá á kostnað þeirra sömu,” segir Styrmir.

Hann beinir spjótum sínum fyrst og fremst að kjararáði sem ákvarðar um launahækkanir æðstu embættismanna. Reiði og óánægja almennings sé vegna ósanngirninnar. Þetta held ég að sé það sem hefur skapað jarðveginn fyrir svona byltingu sem varð í Eflingu,”

Aðspurður hvort þetta sé vísir að enn harðari baráttu innan verkalýðshreyfingarinnar segist Styrmir halda að svo verði.

„Það er mjög líklegt að það verði það, en það fer þó eftir því hvort að þessi ríkisstjórn sem nú situr, sem náttúrulega spannar breytt svið, hvort hún hafi vit á því að bregðast við strax eða hvort hún bregst ekki við.”

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×