Innlent

Staðfestir ákvörðun Skipulagsstofnunar um álver í Helguvík

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra hefur staðfest úrskurð Skipulagsstofnunar vegna álvers Norðuráls í Helguvík og þannig hafnað í bili þeirri kröfu Landverndar að álverið og tengdar framkvæmdir fari í heildstætt mat. Þetta kom fram blaðamannafundi sem ráðherra efndi til í dag.

Samkvæmt lögum hefur Skipulagsstofnun heimild til þess að gera heildarmat á umhverfisáhrifum álvers í Helguvík en nýtti það ekki. Komst stofnunin að því að fyrirhugað álver í Helguvík myndi ekki valda verulega neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi eða samfélag, "með fyrirvara um umhverfisáhrif tengdra framkvæmda," eins og það var orðað í umsögn hennar.

Landvernd taldi eðlilegt að framkvæmdirnar í heild yrðu metnar, þar á meðal hafnarframkvæmdir, svokölluð flæðigryfja, háspennulínur og fyrirhugaðar virkjanir. Vildi Landvernd að álit Skipulagsstofnunar yrði ógilt í kæru sinni til umhverfisráðherra.

Umhverfisráðuneytið tók málið til skoðunar og segir í niðurstöðu þess að til þess að sameiginilegt mat á umhverfisáhrifum geti komið til álita verði tengdar framkvæmdir að vera matsskyldar samkvæmt lögum en í sérhverju mati einstakra framkvæmda skal gera grein fyrir sammögnunaráhrifum þeirra með öðrum framkvæmdum.

Með vísan til þessa og annarra þátta málsins verði eins og á stendur að telja að ákvörðun um sameiginlegt mat álversins og tengdra framkvæmda færi í bága við meðalhófsreglu og sjónarmið um réttmar væntingar framkvæmdaaðila. Því var ákvörðun Skipulagsstofnunar staðfest. Umhverfisráðuneytið áréttar þó að niðurstaðan feli ekki í sér afstöðu ráðuneytisins til þess hvort heildstætt mat kunni síðar að geta komið til álita vegna annarra matsskyldra framkvæmda sem tengjast álverinu í Helguvík.

Ákvörðun samkvæmt lögum en ráðherra ekki að skapi

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra sagði á blaðamannafundinum að ákvörðunin væri samkvæmt lögum en hún væri henni ekki að skapi. Breyta þyrfti lögum um mat á umhverfisáhrifum á þann veg að sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum tengdra framkvæmda væri skylda en ekki heimild.

Sagði hún umhverfið ekki njóta sömu verndar og mannréttindi í stjórnarskrá og taldi hún að við því þyrfti að bregðast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×