Innlent

Hrafnista slapp

Ef norðanátt hefði blásið á mánudagskvöldið hefði að líkindum þurft að rýma fjögur dvalarheimili aldraðra sem eru í nágrenni við Sundahöfn: Hrafnistu, Skjól, Dalbraut og dvalarheimili við Norðurbrún. Alls búa um 600 eldri borgarar á þessum heimilum. Að sögn Sveins H. Skúlasonar, forstjóra Hrafnistu, eru rýmingaráætlanir þar til staðar en þær miðast við að eldur sé í sjálfu húsinu. "Við höfum velt því fyrir okkur hvernig við hefðum tæmt húsið í gær í einu vetfangi, en ekki fært á milli brunahólfa eins og ef eldur hefði verið í húsinu. Eflaust hefðum við reynt að koma fólki hratt frá okkur á einn stað, þangað sem vandamenn hefðu getað sótt það. Þeir sem hefðu þurft á sjúkrahús hefðu verið fluttir þangað," segir Sveinn sem telur að erfiðast hefði verið að flytja þá sem eru rúmfastir. Þrjú hundruð og fimmtíu manns búa á Hrafnistu, þar af eru hundrað sjúklingar. Ekki var um annað talað á heimilinu í gær en eldinn og bar mönnum saman um að Hrafnista hefði sloppið vel.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×