Innlent

Kuldi rekur mýs í hús

Eitthvað hefur verið um að mýs hafi leitað í hús vegna kuldakastsins undanfarna daga. Ómar F. Dabney, rekstrarfulltrúi hjá meindýraeyði Reykjavíkurborgar, segir þó að frekar hafi verið rólegt vegna þessa hjá embættinu og starfsmenn ekki fundið fyrir því að útköllum hafi fjölgað. "Maður kallar ekki tvö til þrjú músarútköll á dag einhverja plágu," segir Ómar og bætir því við að yfirleitt sé það hagamúsin sem sækir inn í hús í úthverfum borgarinnar þegar kuldakast gengur yfir. "Það er þá á stöðum á borð við Grafarvog, Árbæ og í Breiðholtinu, en húsamúsin gerir engan mun á því hvort það er vetur, sumar, vor, eða haust." Ómar segir bæði sveiflukennt og staðbundið hvort áhrifa kulda gæti í auknum músagangi. "Í kuldakasti sem varð í fyrra eða hittifyrra höfðu til dæmis meindýraeyðar úti á landi varla undan að panta eitur, en við urðum lítið varir við vandann hér í Reykjavík."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×