Innlent

Enn engin starfsemi í nágrenninu

Enn hefur engum verið hleypt til starfa hjá fyrirtækjum í grennd við brunastaðinn, enda er óttast að víða sé enn töluvert magn eiturefna í loftinu. Ljóst er að skemmdir af völdum reyks og sóts eru töluverðar. Klukkan 10:30 leyfði lögreglan takmarkaða umferð um svæðið. Hjá OLÍS vissu menn ekki um ástandið innan dyra, enda var öllum skipað að yfirgefa svæðið í nótt. Það þurfti þó ekki annað en að líta á snjóinn til að sjá að töluvert af ösku lá yfir, þó kannski ekki eins mikið og ætla hefði mátt í ljósi þess hversu glatt logaði í nótt. Víða voru fyrirtækjaeigendur og starfsmenn þeirra að störfum fram eftir nóttu, lokuðu gluggum og slökktu á loftræstikerfum. Það kann að hafa komið í veg fyrir skaða á stöku stað. Viðmælandi fréttastofunnar hjá MATA, sem stendur við hliðina á OLÍS, sagði að reykskynjarar þar hefðu ekkert numið enn sem komið er. Óttast er að töluvert tjón hafi þó orðið víða sökum sóts og reyks, og starfsemi fyrirtækja raskaðist. Til að mynda varð varð að hætta vaktavinnu í Kassagerðinni þegar mikill reykur barst inn í húsið. Þá liggur allt starf í Listaháskólanum í Laugarnesi niðri. Óvíst er hvenær starfsfólki fyrirtækja verður hleypt til vinnu á ný, en lögreglan beinir því til forsvarsmanna og starfsmanna fyrirtækja, sem standa við Héðinsgötu, Köllunarklettsveg, Sundagarða, Klettagarða og allt að vöruhóteli Eimskips, að grennslast fyrir hjá lögreglu um framvinduna. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vinnur sem stendur að rannsóknum bæði á skrifstofum fyrirtækja og á heimilum til að kanna magn eiturefna í loftinu. Í kjölfarið verða gefnar út leiðbeiningar til almennings og ákveðið hvort og þá hvenær fólki verður leyft að halda heim eða til vinnu á ný.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×