Innlent

WOW-skúlptúrinn fallinn

Gígja Hilmarsdóttir skrifar
Skúlptúrinn virðist samanstanda af fjórum þrívíðum formum en þegar litið er á hann frá hlið sést að hann er minna en einn sentímetri að þykkt.
Skúlptúrinn virðist samanstanda af fjórum þrívíðum formum en þegar litið er á hann frá hlið sést að hann er minna en einn sentímetri að þykkt.
Listaverkið Obtusa sem stóð við Höfðatorg fauk í rokinu í dag. Verkið er eftir bandaríska listamanninn Rafael Barrios og er í eigu Skúla Mogensen, stofnanda flugfélagsins Wow air.

Hafþór Yngvason, fyrrum safnstjóri Listasafns Reykjavíkur sagði í samtali við Vísi árið 2013, þegar verkið var sett upp, að Skúli og Reykjavíkurborg hafi samið um að Skúli lánaði Reykjavíkurborg verkið. Skúli hafi kostað uppsetningu verksins en Reykjavíkurborg tryggt það.

Verkið var fjarlægt af umhvefis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar eftir að það fauk í dag.

Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur segir í samtali við Vísi að verkið sé ekki mikið skemmt. Hún segir festinguna við jörðina hafa skemmst við vindhviðuna og verkið hafi verið fært til geymslu.

Að sögn Ólafar er verkið tryggt af Reykjavíkurborg og verður það í geymslu þangað til það verður lagað. Þá segir hún tryggingamat verksins vera 18 milljónir íslenskra króna.


Tengdar fréttir

Skúlptúr Skúla í Wow lánaður á Höfðatorg

Setja á listaverk í eigu athafnamannsins Skúla Mogensen upp við Höfðatorg. Skúli lánar borginni verkið sem er eftir Rafael Barrios. Fulltrúi VG segir óþarft og óheppilegt að koma listaverkinu fyrir í almannarými nærri fyrirtæki eigandans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×