Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra kemur ekki til með að tjá sig um rannsókn lögreglu eða gagnrýni á starfshætti lögreglu í máli Kristjáns Gunnars Valdimarssonar lektors, sem sakaður er um líkamsárás, kynferðisbrot og frelsisskerðingu gegn þremur konum. Þetta kemur fram á vef mbl.
„Ég mun ekki tjá mig núna um viðbrögð lögreglu í þessu máli. Rannsókn er á viðkvæmu stigi og ég treysti því að faglega sé unnið af hálfu lögreglunnar,“ segir ráðherrann í skriflegu svari til fréttastofu mbl.
Lögregla hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir starfshætti sína í málinu, en réttargæslumenn tveggja kvenna sem lagt hafa fram kærur á hendur Kristjáni telja hann hafa fengið sérmeðferð hjá lögreglu, og það hafi helgast af stöðu hans sem lektor við lagadeild Háskóla Íslands.
Þá hefur faðir konu sem Kristján er sakaður um að hafa brotið gegn einnig gagnrýnt vinnubrögð lögreglu.
Sjá einnig: Faðir ósáttur við vinnubrögð lögreglu í máli lektors við HÍ
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi fyrr í dag frá sér tilkynningu þar sem fram kom að farið hefði verið yfir upptökur af vettvangi handtöku Kristjáns. Þar segir jafnframt að við yfirferð á upptökum hafi ekkert aðfinnsluvert komið í ljós.
Gögnin verða engu að síður send til Nefndar um eftirlit með lögreglu, auk þess sem óháður aðili mun fara yfir allar upptökur og gögn, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Kristján Gunnar var á jóladag úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag, en lögreglan hefur farið fram á áframhaldandi fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir honum. Dómari sem fer með gæsluvarðhaldskröfuna hefur tekið sér frest til morgundagsins til að ákvarða í málinu.
