Innlent

Hvassviðri í dag spillir fyrir fjáröflun björgunarsveitar

Jóhann K. Jóhannsson og Kjartan Kjartansson skrifa
Frá Jökulsárlóni þar sem flugeldasýning hefur verið haldin árlega.
Frá Jökulsárlóni þar sem flugeldasýning hefur verið haldin árlega. Vísir/Vilhelm
Gul veðurviðvörun á suðausturhluta landsins í dag gerir það að verkum að fresta þarf árlegri flugeldasýningu Björgunarfélags Hornafjarðar á Jökulsárlóni. Viðburðurinn hefur jafnan verið vel sóttur en ákvörðun um að fresta viðburðinum var tekin í gær.

Gert er ráð fyrir vindhviðum sem ná allt að 25-30 metrum á sekúndu annað slagið á Kjalarnesi, undir Hafnarfjalli og sunnanverðu Snæfellsnesi í dag. Í Suðursveit hvessir og getur gert allt að 35 metra á sekúndu þvert á vegi þar, einkum frá miðjum degi og fram á nótt, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar.

Jens Olsen, formaður Björgunarfélags Hornafjarðar, segir að spáð sé um og yfir tuttugu metrum á sekúndu við Jökulsárlón í kvöld. Því hafi verið ógerlegt að fara með flugeldana út á lónið vegna ölduhæðar.

Hann segir fúlt að þurfa að fresta flugeldasýningunni til morguns og von hafi verið á um 2.500 gestum. Flugeldasýningin sé ein helsta fjáröflun björgunarfélagsins og jafnist á við flugeldasölu í kringum áramót.

„Það verður fullt af útlendingum eins og venjulega, öll hótel eru full. Það fækkar kannski eitthvað Íslendingum sem búa fjær,“ segir Jens um hvaða áhrif frestunin gæti haft á aðsóknina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×