Samkvæmt upplýsingum frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni er ekki hægt að fullyrða að öll börnin hafi smitast af umgengni við kálfana á Efstadal II, helmingurinn af börnunum sem smituðust snertu þá ekki. Öll börnin eigi það hins vegar sameiginlegt að hafa borðað ís á staðnum. Nú standa yfir fleiri bakteríurannsóknir á bænum, m.a. á starfsfólki staðarins.

„Þriðji einstaklingurinn sem var lagður inn í gær, fimm mánaða drengur, sem er aftur á móti versnandi og það kemur í ljós núna fljótlega hvort hann muni þurfa blóðhreinsun. Það kemur í ljós í dag eða á morgun.“
Flestir ná sér að fullu
Hinum börnunum sem fengu e. coli-sýkingu heilsast nokkuð vel, að sögn Viðars. Enn sé þó ekki útséð hvort þau fái HUS.„En það er rétt að hafa í huga að maður getur ekki verið öruggur um að þeir sem fá þá sýkingu fái ekki þessa nýrnabilun fyrr en liðnir eru að minnsta kosti tíu dagar frá því að niðurgangur hófst. Þannig að það þarf að fylgja þessu vel eftir og við erum búin að vera í sambandi við alla í morgun og þetta virðist vera að ganga þokkalega. En þetta er lúmskt og það þarf að fylgja þessu eftir með rannsóknum, blóðrannsóknum.“
Sjá einnig: Lítur loksins vel út eftir tveggja vikna þrautagöngu
Viðar segir að flestir sem fá HUS nái sér að fullu.
„Þó nokkrir þó eru með skerta nýrnastarfsemi eitthvað þegar frá líður en geta lifað alveg eðlilegu lífi í sjálfu sér en þurfa eftirlit, kannski eftirlit nýrnalæknis.“
Þá beinir Viðar því til þeirra sem eru með blóðugan niðurgang að koma í eftirlit á Landspítalanum. Aðrir sem fá niðurgang eigi að leita á heilsugæslustöðvar til að meta ástandið.